Rannsóknir á nýjum orkugjöfum

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:22:10 (617)

2002-10-16 15:22:10# 128. lþ. 12.8 fundur 104. mál: #A rannsóknir á nýjum orkugjöfum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég blanda mér í þessa umræðu vegna vetnisrannsóknanna. Ég bar fram á síðasta þingi fyrirspurn til hæstv. ráðherra varðandi aðild ríkisins að rannsóknum vegna hugsanlegra vetnisframleiðslu og m.a. hvaða fé ríkisstjórnin hefði veitt til þeirra rannsókna, vegna þess að ég hef mikinn áhuga á hugsanlegri vetnisframleiðslu og tel það reyndar vera framtíðarorkugjafa ef vel tekst til. Þá kom í ljós að það er Evrópusambandið sem er að fjármagna þessar rannsóknir hér. Evrópusambandið hefur veitt 2,85 millj. evra til slíkra rannókna, sem eru sennilega nær 250 millj. íslenskra króna. Ríkisstjórnin er ekki að veita mikið fé sjálf, hvað þá heldur að ríkisstjórnin reyni að gera sér ljóst hvaðan hún muni sækja orku til þessara verkefna, þannig að það er auðvitað athyglisvert að hæstv. ráðherra fari til Brussel og eigi þar fundi í ljósi þessara staðreynda.