Rannsóknir á nýjum orkugjöfum

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:25:37 (620)

2002-10-16 15:25:37# 128. lþ. 12.8 fundur 104. mál: #A rannsóknir á nýjum orkugjöfum# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin.

Ég vil byrja á að leiðrétta hv. þm. Hjálmar Árnason. Ég sagði aldrei að vetni væri ekki fýsilegt, hv. þm. á að hlusta. Ég sagði að framleiðsla á þeim orkugjafa væri ekki á næsta leiti því að hún væri mjög dýr. Hv. þm. getur séð þetta í útskrift af ræðunni.

Herra forseti. Ég sé það að því miður hafa rannsóknir á öðrum orkugjöfum eins og metani, metangasi, raforku og slíku, sem í sjálfu sér eru ekki síður fýsilegir kostir til orkuframleiðslu en vetni, setið eftir og lítið sem ekkert fjármagn farið til þeirra.

Ég heyri það frá þeim aðilum sem eru einmitt að reyna að brjótast áfram í þessum geira að þeim finnst að vinnu þeirra sé lítill gaumur gefinn. Það er að sjálfsögðu skylda ráðuneytisins og hæstv. ráðherra að líta til fleiri átta en einnar og sökkva ekki ofan í eitt verkefni og gleyma öllum hinum sem eru í kring og eru kannski í hendi. Sumt af þessu er mjög í hendi eins og notkun metangass. Gerðar hafa verið tilraunir með bíla að þessu leyti, en það hefur gengið mjög hægt. Hægt er að gera miklu meira og nýta þá möguleika sem hafa verið reyndir m.a. í Svíþjóð með góðum árangri. Við þurfum ekkert að fara langt til sjá að þarna eru möguleikar sem ég vona að hæstv. ráðherra skoði og setji einhverja fjármuni í til þess að þróa áfram.