Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:39:13 (625)

2002-10-16 15:39:13# 128. lþ. 12.9 fundur 174. mál: #A Orkubú Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:39]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Aðalgallinn við að ræða um framtíð Orkubús Vestfjarða í því samhengi að sameina það hugsanlega öðrum orkufyrirtækjum er auðvitað að engar forsendur eru fyrir slíkum viðræðum. Hæstv. ráðherra er einfaldlega bundin af ákveðnu samkomulagi. Og samkomulagið kveður á um að óbreyttu rekstrarformi skuli viðhaldið að óbreyttum raforkulögum. Ný raforkulög eru ekki einu sinni komin hingað í hús, þau hafa ekki verið lögð hérna fram. Það er alveg fráleitt að tala á þeim nótum sem hæstv. ráðherra gerir hér, að verið sé að hyggja að sameiningu við fyrirtækið þegar það liggur fyrir að það stenst ekki það samkomulag sem gert var á milli sveitarfélaganna og ríkisins.

Mér finnst að hæstv. ráðherra verði einfaldlega að sýna okkur fram á það að slík sameining geti falið í sér lækkun raforkuverðs. Það hlýtur auðvitað að vera grundvallarmarkmiðið sem menn horfa á. Hver verða áhrifin á orkuverðið í landinu, á orkuverðið á Vestfjörðum, með slíkri sameiningu? Um það hefur ekkert verið rætt, ekkert verið sýnt fram á að orkuverðið muni lækka og þess vegna er fráleitt að tala á þessum nótum.