Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:40:45 (626)

2002-10-16 15:40:45# 128. lþ. 12.9 fundur 174. mál: #A Orkubú Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Okkur er mikill vandi á höndum. Hér er á ferðinni hluti af fyrirætlunum ríkisstjórnarinnar um að breyta umhverfi raforkumála. En það er engin stefna sýnd. Menn vita ekkert hvað er fram undan. Samt er verið að tala hér um mikilvægt fyrirtæki --- starfsemi þess er mjög mikilvæg fyrir svæðið sem hér um ræðir --- en það eru líka miklu stærri hlutir í húfi hvað varðar allt þetta fyrirbrigði sem við köllum raforkugeirann á Íslandi. Auðvitað hefði átt að liggja fyrir umræða í hv. Alþingi um einhverja stefnu ríkisstjórnarinnar, hvernig eigi að koma þessu heim og saman, hvernig eignarhaldi eigi að vera háttað á Landsvirkjun, á Rarik og öðrum orkufyrirtækjum í landinu eftir að búið er að skipuleggja þessa hluti upp á nýtt. En nákvæmlega ekkert liggur fyrir. Og meðan svo er ekki er þetta auðvitað fáránleg umræða.