Orkubú Vestfjarða

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:44:42 (629)

2002-10-16 15:44:42# 128. lþ. 12.9 fundur 174. mál: #A Orkubú Vestfjarða# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:44]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það á að vera mönnum kunnara en frá þurfi að segja að fjárhagsstaða sveitarfélaga á Vestfjörðum var orðin slík að það háði mjög getu sveitarfélaganna til að sinna hlutverki sínu. Kaup ríkisins á hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða hefur gjörbreytt stöðu sveitarfélaganna. Þau hafa núna afl til þess að sækja fram og bæta þjónustu við íbúa sína. Ég held að menn megi ekki gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur með þeim gerningi, m.a. fyrir tilstuðlan ríkisstjórnar Íslands sem keypti hlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða á mjög góðu verði frá sjónarhóli þeirra sem seldu.

Ég minni hv. þingmenn á að þessi mál voru rædd á fjórðungsþingi Vestfirðinga í lok ágúst sl. og þar gaf iðnrh. út skýlausa yfirlýsingu um að auðvitað yrði staðið við það samkomulag sem gert var við sveitarfélagið. Því stendur ekki til að gera neinar breytingar á rekstri og eignarhaldi Orkubús Vestfjarða. En það er verið að skoða ýmsa möguleika, eins og menn voru almennt sammála um að rétt væri að gera. Og ég held að hv. þingmenn Sjálfstfl. á Vestfjörðum ættu að hafa þetta í huga þó að það verði að virða þeim til vorkunnar að prófkjör er á næsta leiti.