Viðskiptahættir á matvælamarkaði

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:54:19 (633)

2002-10-16 15:54:19# 128. lþ. 12.10 fundur 166. mál: #A viðskiptahættir á matvælamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:54]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal, 1. þm. Norðurl. e., hefur beint til mín eftirfarandi fyrirspurn:

,,Hvað liggur á bak við þessi ummæli Guðmundar Sigurðssonar, forstöðumanns samkeppnissviðs Samkeppnisstofnunar í DV 8. okt. sl.: ,,Það virðist hafa orðið stefnubreyting hjá stóru keðjunum í þá átt, að þær hafi ekki beitt sér með sama hætti og áður eftir að skýrslan kom út. Við höfum upplýsingar um það frá birgjum að ástandið hafi gjörbreyst``?``

Af þessu tilefni óskaði ráðuneytið eftir afstöðu Samkeppnisstofnunar til fyrirspurnarinnar og er svar stofnunarinnar eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Í apríl 2001 birti Samkeppnisstofnun skýrslu um matvörumarkaðinn, verðþróun í smásölu 1996--2000. Í skýrslunni kemur m.a. fram að birgjar matvöruverslana, þ.e. innlendir framleiðendur og heildsalar, hafi bent á að verslunarkeðjur hafi beitt markaðsstyrk sínum til að knýja fram viðskiptakjör sem hafi skert samkeppnishæfni birgjanna.

Í skýrslu sinni boðaði Samkeppnisstofnun að hún hygðist rannsaka frekar þær ásakanir sem vitnað er til í skýrslunni. Síðastliðinn vetur hóf stofnunin boðaða rannsókn með því m.a. að ræða við fulltrúa stærri birgja og verslunarkeðja. Í samtölum við þessa aðila kom fram, að mati starfsmanna Samkeppnisstofnunar, að breyttir starfshættir hefðu rutt sér til rúms í viðskiptum verslunarkeðjanna og birgjanna, m.a. eftir að áðurnefnd skýrsla stofnunarinnar var birt. Fram kom í viðtölum við birgja að þeir væru mun sáttari við viðskiptahættina sem felast í stuttu máli helst í því að keðjurnar beiti ekki afli þannig að viðskiptasamningar séu ekki virtir og ekki sé knúin fram mismunun í viðskiptakjörum sem raski samkeppni o.s.frv.``

Í meginatriðum liggur framansagt að baki þeim ummælum sem fyrirspurn þingmannsins vitnar til. Þess má til fróðleiks geta að í kjölfar þeirra viðtala sem Samkeppnisstofnun átti við aðila á matvörumarkaðnum sl. vetur boðaði stofnunin að hún hygðist gefa út sérstakar reglur til aðila á matvörumarkaðnum þar sem fram komi leiðbeiningar um hvers konar viðskiptahættir teljist ásættanlegir með tilliti til ákvæða samkeppnislaga og hvaða viðskiptahættir séu það ekki. Drög að reglum hafa verið kynnt hagsmunaaðilum og unnið hefur verið úr athugasemdum þeirra. Þess er að vænta að reglurnar verði birtar á næstu vikum.