Viðskiptahættir á matvælamarkaði

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 15:57:24 (634)

2002-10-16 15:57:24# 128. lþ. 12.10 fundur 166. mál: #A viðskiptahættir á matvælamarkaði# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., LB
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[15:57]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Segja má sem svo að fyrirspurnin sem hér er til umræðu sé ekki mjög hefðbundin, enda ekki alveg hefðbundinn þingmaður á ferð.

En vegna þessarar fyrirspurnar reyndi ég að hlýða vandlega á mál hv. þm. Halldórs Blöndals og fékk það út að hann hefði áhyggjur af því að tiltekið fyrirtæki kæmist í þá stöðu að geta nýtt sér aðstæður til að knýja aðra til mjög erfiðra viðskipta, knýja fram mjög góð viðskiptakjör, ef svo má að orði komast.

Ég tek undir með hv. þm. að það er mikilvægt að komið sé í veg fyrir það. En ég vonast til að fá hv. þm. í lið með mér þegar við förum að ræða um samgöngumál og þá væntanlega Flugleiðir, Eimskipafélagið, tryggingafélög, banka og fleiri. Þá verð ég að segja eins og er, að það verður virkilega gaman að fá hv. þm. Halldór Blöndal til liðs við þá umræðu sem skiptir þetta samfélag mjög miklu máli, þ.e. að koma í veg fyrir fákeppni í samfélaginu.