Lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 16:04:44 (638)

2002-10-16 16:04:44# 128. lþ. 12.13 fundur 93. mál: #A lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. fjmrh. er um hvað líði sérstakri úttekt á áhrifum lækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 100% í 60% til byggjenda íbúðarhúsnæðis vegna vinnu manna á byggingarstað og til eigenda íbúðarhúsnæðis vegna viðhaldsvinnu. En þessa úttekt ákvað Alþingi á 126. löggjafarþingi.

Þetta er reyndar sama fyrirspurn og borin var fram fyrir nákvæmlega einu ári, 17. október 2001, til ráðherrans. Þá fékk sú sem hér stendur einstaklega knálegt svar hæstv. ráðherra um að úttekt væri hafin og þegar henni yrði lokið yrði skýrt frá niðurstöðunum. Ár er liðið og ég velti því fyrir mér hvort henni sé ekki enn lokið og hvort svo langan tíma taki að afla þessara upplýsinga, ekki síst þar sem mér fannst að fyrir lægju meginlínur í þessu máli þegar frv. Samfylkingarinnar var borið fram á sínum tíma. Það frv. var um að færa endurgreiðslurnar til fyrra horfs frá því áður en endurgreiðsluhlutfallið var lækkað úr 100% í 60%.

Á sínum tíma var slík vinna undanþegin söluskatti og við breytinguna yfir í virðisaukaskatt hefði hún sjálfkrafa orðið að fullu skattskyld ef undanþága hefði ekki komið til. Full skattskylda hefði haft í för með sér hækkun á byggingarkostnaði og byggingarvísitölu. Önnur ekki síðri ástæða endurgreiðslunnar má ætla að hafi verið að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi.

Frá því að lækkun endurgreiðslu tók gildi og þar til málið var flutt sem ég hef vísað hér til, hafði umsóknum stórfækkað og endurgreiðslufjárhæðir lækkað. Ég hef ekki upplýsingar um hvernig þessi mál hafa þróast síðar, undanfarin tvö ár. En þetta gaf til kynna að svört atvinnustarfsemi hefði aukist til muna og ætla má að með því að færa endurgreiðsluna til fyrra horfs muni það stuðla að betri skilum til skattyfirvalda og þar með auknum skatttekjum þó endurgreiðslubeiðnum fjölgi og greiðslur hækki.

Frumvarp Samfylkingarinnar um að færa endurgreiðsluna á ný í 100% fékk þá meðferð hjá efh.- og viðskn. að nefndin flutti tillögu um að fjmrh. gengist fyrir þessari sérstöku úttekt sem ég spyr hér um.

Virðulegi forseti. Ég hef mikinn áhuga á því að heyra hvað líður úttektinni og þá ekki síður hvaða hug hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde hefur til þess að endurskoða endurgreiðsluprósentuna og hvort hann muni skoða það að hækka hlutfallið.