Lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 16:10:45 (640)

2002-10-16 16:10:45# 128. lþ. 12.13 fundur 93. mál: #A lækkun á endurgreiðslu virðisaukaskatts# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[16:10]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það er rétt að fagna því að þessi skýrsla er komin fram þótt seint sé. Vitanlega eiga menn eftir að skoða hana og velta fyrir sér niðurstöðum hennar.

Það sem mig langar til að komi fram í umræðunni hér er með hvaða hætti menn hafa metið hvort og hversu mikið undanskot frá skatti hafi aukist við þessa breytingu því það kemur mér mikið á óvart ef það hefur ekki gerst. Það mun svo sannarlega breyta niðurstöðunum ef það er eitthvað að ráði. Það er ekki mælikvarði, að mér finnst, í þessu efni þó eitthvað hafi aukist það sem ríkissjóður fær til sín á pappírunum frá því sem áður var heldur er það fyrst og fremst þetta sem skiptir þarna máli. Það veit ég einfaldlega að mjög oft er gerður einhvers konar samningur milli þeirra sem kaupa þjónustu og þeirra sem selja hana, þ.e. annar fær virðisaukaskattinn eða sem svarar honum og hinn hagnaðinn af því að það er ekki gefið upp til skatts sem unnið er.