Neysluvatn

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 10:38:54 (647)

2002-10-17 10:38:54# 128. lþ. 13.3 fundur 13. mál: #A neysluvatn# þál., Flm. KF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[10:38]

Flm. (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um neysluvatn.

Í tillögunni er því beint til ríkisstjórnarinnar að

a. neysluvatn verði skilgreint sem auðlind í lögum,

b. málefni þess verði vistuð á einum stað í stjórnsýslunni og

c. stuðlað verði að útflutningi á fersku neysluvatni í samstarfi við vatnsútflutningsfyrirtæki og sveitarfélög.

Gert er ráð fyrir að eftirlit með gæðum vatns verði áfram á vegum Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga.

Sú merka auðlind sem felst í fersku lindarvatni er ekki öllum ljós. Þó er vitað að við Íslendingar eigum yfir að ráða mun meira vatni en við þurfum sjálf á að halda þótt vatnsskorts geti gætt á einstaka stað á landinu. Samt er auðlindin munaðarlaus og hvergi vistuð í stjórnsýslunni þar sem engin ein stofnun fer með markvissa ráðgjöf eða heldur utan um málefni hennar. Mikilvægt er að umgangast þessa auðlind þannig að komandi kynslóðir eigi aðgang að fersku neysluvatni í framtíðinni því þrátt fyrir gnægð þess núna er ferskt vatn á Íslandi ekki ótakmörkuð auðlind. Núverandi heildarnotkun og vinnsla á neysluvatni er hvergi skráð og í stjórnsýslunni er hvergi haldið utan um þekkingu á auðlindinni á einum stað. Eðlilegt væri að mínu mati að fela t.d. Orkustofnun það verkefni.

Mestu skipta eftirtalin þrjú atriði:

1. Að auðlindin verði skilgreind sem slík og stjórn á meðferð hennar vistuð á einum stað í stjórnsýslunni.

2. Að eftirlit með gæðum neysluvatns og vernd vatnsbóla í heimabyggð sé áfram í þeim góðu höndum sem það hefur verið, þ.e. hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga og Hollustuvernd ríkisins sem verður Umhverfisstofnun þann 1. janúar 2003.

3. Að möguleikar séu á arðbærri nýtingu á neysluvatni umfram það sem þjóðin neytir sjálf.

Herra forseti. Um 70% af yfirborði jarðar eru vatn en af heildarvatnsforðanum á jörðinni er megnið, eða 97,4%, saltvatn. Ferskvatn nemur aðeins 2,5% af öllu vatni og neysluhæft vatn er eingöngu 0,27%. Vatn er því takmörkuð auðlind, sérstaklega þegar þess er gætt að aðgangur að neysluhæfu vatni er mjög misjafn eftir landsvæðum á jörðinni.

Neysluvatn er skilgreint sem matvæli á Íslandi og vatnsveitur sem matvælafyrirtæki. Vatn þarf að lúta ströngum gæðakröfum og um vatn gilda fjölmörg lög sem talin eru upp í greinargerð með þáltill. Vatnsveitulög eru til og heyra undir félmrn., hitaveitur og rafveitur undir iðnrn. og Hollustuvernd ríkisins (Umhverfisstofnun) undir umhvrn.

Í vatnalögum er gert ráð fyrir að atvinnumálaráðherra hafi yfirstjórn vatnamála á hendi. Þá er rétt að minnast á væntanlega Matvælastofnun en til stendur að hún muni heyra undir sjútvrn. Í auðlindanefndinni svokölluðu, sem skilaði skýrslu í september árið 2000, var fjallað um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, þ.e. nytjastofna á Íslandsmiðum, auðlindir á, í eða undir hafsbotni utan netalaga og náttúruauðlindir í þjóðlendum.

Í auðlindaskýrslunni kemur fram að eignarhald á náttúruauðlindum sé skilgeint í ýmsum lögum og sumar náttúruauðlindir á landi háðar einkaeignarrétti en aðrar eignarrétti ríkisins sem sérstaklega er kveðið á um í lögum. Með þessari skýrslu fylgdi reyndar sérálit Geirs Oddssonar umhverfisfræðings þar sem sagði að í raun mætti skilgreina alla náttúruna, þar með jarðveg, plöntur, dýr, andrúmsloft, sól og vatn, sem mögulega náttúruauðlind.

Herra forseti. Íslenskt vatn á gjöfulum linda- og grunnvatnssvæðum er hreint, gerla- og efnasnautt. Sýrustig vatns hér á landi er víða pH 8,5--9, t.d. í Reykjavík, en allvíða er það lægra þar sem vatnið kemur grynnra úr jörðu eða allt niður fyrir pH 7 sem þó er afar sjaldgæft. Nokkuð víða er sýrustigið á bilinu pH 7,5--8,5. Leyfileg mörk sýrustigs vatns hér á landi samkvæmt reglugerð nr. 536/2001 eru á mörkunum pH 6,5--9,5. Svolítið er misjafnt með hverju er mælt sem ,,æskilegu`` sýrustigi vatns en neðri mörk eru oftast sett við pH 7 og efri mörk kannski við pH 8,5. Þá er einnig litið til þess hve ,,þurrt`` vatn er, ef svo má kalla, en það veldur því að vatnið er síður óæskilegt, þrátt fyrir sýrustig á bilinu pH 8--8,5 eins og víða erlendis. Unnt er að lækka sýrustig vatns með því að bæta í það kolsýru. Slíkt telja margir að sé vænlegur kostur hér á landi, einkum þar sem við höfum yfir að ráða nýtanlegri náttúrulegri kolsýru.

Vatn á Íslandi kemur úr kísilríkum og tiltölulega kalksnauðum jarðvegi. Veldur það því að harka þess er mjög lítil og bragðið ekki eins rammt og víða er. Þess vegna helst bragð ýmissa blandefna í íslensku vatni vel, betur en í hörðu og kalkríku vatni. Jafnframt hefur íslenskt vatn komið vel út í bragðprófunum eitt og sér.

[10:45]

Annað er sérkennandi fyrir íslenskt grunnvatn og það er hve lítið er í því af nítrötum. Það mun einkum vera vegna gróðurleysis á hálendinu. Magn nítrats í íslensku vatni er 0,1--0,3 mg/l en Evrópustaðallinn er 25--40 mg/l. Í ýmsum iðnaðarlöndum kringum Norðursjó, svo sem í Danmörku, Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi og Niðurlöndum, er nítrat í vatni farið að nálgast hættumörk. Víða um lönd hefur miklu verið spillt af vatni, t.d. með áburði og skordýraeitri.

Víða um lönd er almennt vatn aðgreint frá drykkjarvatni og gerðar mismunandi kröfur um efnainnihald og gæði. Í mörgum löndum er klórbragð af vatni enda er það klórblandað, sums staðar eru eiturefni í því en það er víðast hvar gerlafrítt, einkum af því að það hefur verið meðhöndlað. Arsenik er náttúrulegt efni í jarðvegi víða.

Herra forseti. Í bæklingi frá Worldwatch Institute á Norðurlöndunum frá 1998 kemur í ljós, þegar borið er saman hversu vatnsrík hin ýmsu lönd eru í heiminum, að Ísland er ferskvatnsauðugasta land veraldar, með 666.667 rúmmetra á mann á ári. Við erum fámenn þjóð í stóru landi. Kongó hefur t.d. helming af þessu vatni, Kanada 1 6 , Noregur heldur minna en það. Brasilía hefur innan við 47 þús. rúmmetra, Bandaríkin tæpa 10 þús. rúmmetra, Japan 4.400 rúmmetra á mann á ári, og þannig má áfram telja.

Séu vatnssnauðustu ríkin tekin til samanburðar má nefna Jórdaníu, sem hefur 327 rúmmetra af vatni á mann á ári, Sádi-Arabíu 306, Singapúr 221, Möltu 85 rúmmetra, en þar er reyndar unnið vatn úr sjó sem kemur þá til viðbótar við þetta. Í Kúveit eru 75 rúmmetrar á mann á ári og lestina rekur Djíbútí með 23 rúmmetra af fersku vatni á íbúa á ári. Það er ljóst að vatnsskortur er orðinn verulegur í ýmsum stórborgum heims og má nefna sem dæmi Mexíkóborg og Rio de Janeiro.

Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun koma um 400.000 l/sek. af grunnvatni upp í byggð á vatnsgæfum lindarsvæðum en talið er að vatnsöflun í iðnaðarlöndunum, þar sem ekki er um slík vatnsgæf lindarsvæði að ræða, geti verið allt að tífalt dýrari en hér. Í grein eftir Freystein Sigurðsson jarðfræðing í ritinu AVS 1994 kemur fram að um 1 rúmmetri af hreinu grunnvatni á Íslandi kosti um 20 kr. hér á landi en jafnvel tífalt það er kostnaðurinn af vatni úr krana í Kaupmannahöfn. Vatn er selt út úr búð í útlöndum á 10--50 kr. hver lítri. Það má því segja að það magn af vatni sem við gætum með frekar auðveldum hætti nýtt og jafnvel selt til útlanda ætti að vera há tala fyrir okkar þjóðarbúskap.

Ef vel á að vera þarf að taka vatn við uppkomustað, t.d. undan hrauni nálægt sjó. Við Íslendingar nýtum nú um eitt prósent af vatnsmagni hér á landi. Ef við ykjum vatnstökuna, t.d. um eitt prósent í viðbót, er líklegt að það mundi ekki hafa teljandi áhrif á lífríki landsins, en það færi þó eftir því hvaðan vatnið væri tekið. Hugsa mætti sér að tekin yrðu 100 millj. tonna á ári eða jafnvel 150 millj. tonna. Þetta eru háar tölur ef maður hugsar um magn af innfluttu eldsneyti til samanburðar þ.e. 1 millj. tonna. Við seljum á ári eða flytjum úr landi nokkur hundruð þúsund tonn af fiski, þannig að þetta er gríðarlega mikið magn.

Ég tel, herra forseti, okkar möguleika helst liggja í drykkjarvatni. Hver maður er talinn neyta um tveggja lítra á dag og ef maður leikur sér að samanburðartölum, ef við tækjum 500 þús. lítra á sekúndu á dag af vatni þá eru það um 500 millj. lítra. Við gætum með því fullnægt þörfum allra íbúa Evrópusambandsins fyrir drykkjarvatn, þótt það standi ekkert endilega til því að flest þau lönd sjá sér þokkalega vel fyrir drykkjarvatni. En ég tek þennan samanburð til að draga stærðarhlutföllin fram í dagsljósið.

Samkeppni í vatnssölu í veröldinni er gríðarlega mikil. Víðast hvar reyna menn að nota vatn sem fæst í heimabyggð. Þannig verður hver eining ekki dýr vegna þess að flutningskostnaður verður þá svo lítill. En það er hár flutningskostnaður sem háir okkur mest við að koma vatni á markaði erlendis.

Nokkuð hefur verið gert af því að flytja vatn út frá Íslandi og var frumkvöðull í því Davíð Scheving Thorsteinsson. Síðastliðinn áratug hefur fyrirtækið Þórsbrunnur, sem Orkuveita Reykjavíkur veitti stuðning, selt vatn úr landi, einkum á Bandaríkjamarkað. Samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði mér frá Orkuveitu Reykjavíkur var sú vatnssala lengst af í jafnvægi þótt tap hafi orðið á henni undanfarna mánuði. Nú hafa orðið breytingar á eignarhaldi á Þórsbrunni og menn fara sér hægt sem stendur. Þó hefur t.d. ekki verið kannað til hlítar hvort flytja megi og selja vatn með tankskipum til fjarlægari heimshluta eða hvort vatnsútflutningur geti orðið liður í þróunaraðstoð Íslendinga.

Í handbók um vistvernd í verki, sem gefin var út hér fyrir skömmu, kemur fram að flestir landsmenn, næstum því 2 3 eru tengdir vatnsveitum sem vinna vatn úr borholum, um þriðjungur nýtir sér vatn úr uppsprettum og lindum, 3% úr brunnum og önnur 3% nota yfirborðsvatn. Eftir því sem vatnið er unnið úr efri jarðlögum er meiri hætta á mengun vatnsins. Vatnsveita Reykjavíkur tók til starfa 1909 og hún var eitt mesta mannvirki sem Íslendingar höfðu ráðist í frá landnámi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að tíunda nánar efni þessarar greinargerðar en við vitum að innan 50 ára munu yfir 4 milljarðar manna búa í löndum sem geta ekki séð fyrir því sem Sameinuðu þjóðirnar mæla með af vatni, en það er a.m.k. 50 lítrar af vatni á dag til matseldar, þvotta og drykkjar. Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna telur að heiminn muni skorta ferskt vatn árið 2050 vegna fólksfjölgunar og að auðlindir veraldar séu nýttar meira nú en nokkru sinni fyrr í sögunni.

Herra forseti. Ég legg til að þessari tillögu verði vísað til iðnn. að lokinni umfjöllun hér. Henni var vísað til umhvn. eftir umfjöllun sl. vor og þar hefur fengist nokkuð af umsögnum en ég óska eftir því að henni verði vísað til iðnn.