Óhreyfð skip í höfnum og skipsflök

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:42:49 (658)

2002-10-17 11:42:49# 128. lþ. 13.4 fundur 14. mál: #A óhreyfð skip í höfnum og skipsflök# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:42]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég deili ekki um það við hv. þm. Katrínu Fjeldsted að það geti vel verið mjög eðlilegt og nauðsynlegt að farga skipum með þeim hætti sem hún leggur til. En margir gamlir sjómenn, fiskimenn, vilja halda því fram að eftir að sjávarbotninn hefur verið skrapaður, eins og raun ber vitni, af togurum, t.d. Halamið og fleiri mið, sé ekkert skjól orðið eftir fyrir fiskinn. Mjög íhugull og virtur sjómaður, Karvel Ögmundsson, frægur maður og mikil aflakló hér á árum áður, sagði í viðtalsþætti í sjónvarpinu að hann teldi að það stæði uppgangi fiskstofna fyrir þrifum í dag að þá vantaði meira skjól. Hann lagði reyndar til að það yrði hent út stórgrýti og öðru slíku til að skapa þetta skjól.

Ég ætla ekki endilega að segja að það sé nauðsynlegt en þegar hv. þm. segir að þetta þurfi að vera náttúrulegar aðstæður þá spyr ég: Hvað eru ónáttúrulegar aðstæður í sjálfu sér þegar við erum að tala um stál sem kemur úr jörðinni eða tré sem vex upp af jörðinni? Ég sé ekki að það séu ónáttúrleg uppvaxtarskilyrði þó að þetta séu skipsskrokkar. Sé búið að hreinsa úr þeim öll þau spilliefni sem hættuleg eru fyrir umhverfið þá er þetta eins náttúrulegt og hvað annað.

Ég man eftir því frá því er ég var á sjónum að á vinsælum togslóðum voru flök merkt nákvæmlega inn á kortin, menn vissu svona nokkurn veginn hvar þau voru. Oft var hins vegar farið mjög nærri þessum skipsflökum vegna þess að það var oft mikill fiskur í kringum skipsflökin. Þess vegna kom alveg oft fyrir að menn festu trollið þar og töpuðu því aftan úr sér. Menjan er frægt dæmi um það. Önnur skipsflök mætti nefna sem skipstjórnarmenn þekkja og hafa reynt að varast í gegnum tíðina þótt þar sé oft og tíðum meira líf en annars staðar í kring, þar sem allt er autt eða slétt.

Herra forseti. Ég sé ekki beint ástæðu til að vera að blanda þessu saman við spilliefni, blaðapappír, fernur og annað slíkt. Auðvitað er það sérstakt mál og tekið á því í þinginu sem umhverfismáli þar sem menn skili ákveðnum upphæðum við kaup á vöru til þess að hægt sé að eyða henni, t.d. bílum og þungavinnuvélum og ýmsu öðru. Það er allt að komast í eðlilegra horf þannig að hægt sé að fylgja málum eftir frá framleiðslustigi til úreldingar.