Óhreyfð skip í höfnum og skipsflök

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 11:48:03 (660)

2002-10-17 11:48:03# 128. lþ. 13.4 fundur 14. mál: #A óhreyfð skip í höfnum og skipsflök# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[11:48]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við séum ekki mjög ósammála um þetta, enda flytjum við málið saman.

Hægt er að fara út um víðan völl í þessari umræðu. Það er viðurkennt, og ég hef talað um það í þessum ræðustóli, tel mig þekkja það aðeins, að það er búið að fara mjög mikið yfir hafsbotninn og breyta honum frá því sem áður var. Það þekkja sjómenn sem hafa verið að veiðum á Halamiðum og þekkja söguna mann fram af manni að þar hafa aðstæður breyst gríðarlega. Þar sem áður var fullt af osti og alls konar gróðri sem hefur þrifist á hafsbotni, þá fylltust trollin af slíkum gróðri þegar menn voru að byrja veiðar á Halamiðum, togveiðar, og smám saman eftir því sem veiðin jókst og menn voru lengur að, þá bara tæmdist þetta og eyddist einhvern veginn þannig að þó að ostinum hafi verið hent fyrir borð þá er eins og hann hafi ekki náð að vaxa upp að nýju. Í dag er botninn eins og hefluð fjöl.

Mörg veiðisvæði þar sem eru viðkvæm hraun hafa menn skrapað niður ákveðnar rennur í hafsbotninn gegnum hraunin til þess að eiga togslóð. Það er alveg rétt að rannsaka þyrfti þetta miklu betur en gert hefur verið og við höfum lagt til að það verði gert. Og ég vona svo sannarlega að menn nái saman um að gera eitthvað slíkt.