Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:11:02 (664)

2002-10-17 12:11:02# 128. lþ. 13.5 fundur 15. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:11]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég þakka frummælanda fyrir að leggja fram þetta frv. og þar með benda á mikilvægi þess að efla íbúalýðræði í hverju sveitarfélagi því að það er mjög mikilvægt.

Í sambandi við íbúaþingin og það fyrirkomulag sem hér er bent á vil ég minna á verkefni eða breytta starfshætti öllu frekar þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið upp og gert að sínu markmiði sem hefur verið fellt undir heitið Sjálfbær þróun sveitarfélaganna. Staðardagskrá 21 er annað heiti yfir þá hugmyndafræði og vísar til breyttra starfshátta og frekari íbúalýðræðis á 21. öldinni.

Í frv. kemur fram að sveitarstjórn skuli að jafnaði einu sinni á hverju kjörtímabili standa fyrir íbúaþingi. En samkvæmt hugmyndafræði Staðardagskrár 21 er þessi hugsun innbyggð í vinnuferlið. Nú þegar hafa fjölmörg sveitarfélög tekið upp þessa stefnuskrá og gert að sinni. Ég vil minna á að þetta er meira en pappír. Um er að ræða breyttar vinnuaðferðir í stjórnsýslunni, m.a. að koma á auknu íbúalýðræði. Hjá þeim sveitarstjórnum sem fara af alvöru í þessa vinnu getur íbúaþing, að mínu mati, orðið sjálfsagður hluti af stjórnkerfinu og jafnvel verið háð árlega.

Eins og kom fram hjá frummælanda er íbúaþing ekki það sama og borgarafundur. Það á að vinna áfram með íbúaþingin. Þau eru ekki bara til þess ætluð að fá fram ábendingar heldur eru þau grunnur að áframhaldandi vinnu hjá sveitarfélaginu. Þetta er, eins og ég segi, breyting á vinnuaðferðum innan stjórnsýslukerfisins. Íbúaþingin geta síðan verið margvísleg. Þau geta verið uppspretta frekari vinnu í minni hópum og á íbúaþingum geta menn skilað af sér ákveðinni vinnu og kynnt hana. En þau eru sá grunnur sem sveitarstjórnirnar eiga svo að byggja á.

Ég tek undir að mjög mikilvægt er að auka íbúalýðræði og hvetja til þátttöku, bæði á slíkum þingum og ekki síður í minni vinnuhópum. Það á að nýta krafta íbúanna til þess að takast á við ákveðin og afmörkuð verkefni sem falla að áhugasviði hvers og eins. Þannig myndast frjór jarðvegur sem gerir íbúana meðvitaða. Þeir verða þátttakendur --- þetta smitar út frá sér --- og þeir hafa áhrif á ákvarðanatöku sveitarfélaganna. Segja má að á flestum stöðum fari í gang vinnan í kringum verkefni sem snúa að okkur öllum, t.d. hvernig eigi að fara með sorp frá heimilunum, hvernig eigi að flokka, hvað við getum gert, hvernig við getum endurnýtt, hvernig við getum minnkað sorpið. Þetta er einmitt tilvalið verkefni fyrir smærri hópa en verður svo stórt viðfangsefni fyrir sveitarstjórnirnar og fyrir íbúana alla til að taka þátt í þegar búið verður að finna viðunandi lausnir.

Ég tel að íbúaþingum sem slíkum ætti að vera vel fyrir komið hjá þeim sveitarfélögum sem hafa gert Staðardagskrá 21 að hluta af stjórnsýslu sinni, hjá þeim sveitarfélögum sem taka það starf alvarlega, og þar með séu þessi íbúaþing í raun hluti af því ferli. Hvort binda eigi þetta í lög tel ég að megi skoða í framtíðinni ef misbrestur verður á því að sveitarfélögin taki þetta upp. Ef svo verður ekki þá veit ég ekki hvort lagasetning dugi til. En eitt er víst, þá hafa þau sveitarfélög sem hafa gert Staðardagskrá 21 eða vilja vinna að sjálfbærri þróun ekki skilið hlutverk sitt. Ég tel að við eigum að stuðla að því að fá fleiri sveitarfélög og helst öll sveitarfélög í landinu til að vera vel virk í þessu mikla verkefni.