Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:21:48 (667)

2002-10-17 12:21:48# 128. lþ. 13.5 fundur 15. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., Flm. MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:21]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga fjallar fyrst og fremst um það að auka íbúalýðræði og að þátttökulýðræði verði virkt í hverju sveitarfélagi. Auðvitað hefði verið gott að taka inn í greinargerð bæði Staðardagskrá 21, hvernig menn hafa getað notað hana erlendis varðandi skipulagsmál hér á landi, taka líka fyrir mat á umhverfisáhrifum, aðkomumöguleika fólks eða íbúanna að þeim. En hins vegar tel ég þetta miklu víðtækara. Þetta fjallar um lýðræðislega ákvörðun, lýðræðislega vinnu í sveitarfélögum almennt hvað varðar alla þætti. Og sé það vilji, sem ég vona svo sannarlega að það sé í flestum sveitarfélögum, að vinnubrögð eða Staðardagskrá 21 verði samþykkt inn í verkefni sveitarfélaganna almennt mun það örugglega koma fram á þessum íbúaþingum. Samfylkingin er með þessu að leggja áherslu á breytt vinnubrögð, lýðræðislega aðkomu íbúa sveitarfélaganna að framtíðarskipulagi og framtíðarfyrirkomulagi öllu í sveitarfélögunum. Ég er sannfærð um að þetta er til hagsbóta, ekki bara fyrir stjórnendur sveitarfélaganna heldur íbúana sjálfa, og að stjórnendur sveitarfélaga muni fyrir vikið njóta meira trausts og meiri virðingar þegar þátttökulýðræði innan sveitarfélagsins er orðið virkt.