Staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:42:49 (670)

2002-10-17 12:42:49# 128. lþ. 13.95 fundur 180#B staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:42]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. dómsmrh. að staða lögreglunnar á Íslandi er sterk. Staða ríkisstjórnarinnar gagnvart almennri löggæslu, forvarna- og fíkniefnastarfi er hins vegar veik og það er tilefni þeirrar utandagskrárumræðu sem hér fer fram og ég vil þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að hafa forgöngu um hana. Upphaflega er þetta runnið undan rifjum Lögreglufélags Suðurlands sem hefur ritað þingmönnum á Suðurlandi bréf, en félagssvæði lögreglufélagsins tekur til embætta lögreglustjóranna á Selfossi, Hvolsvelli, Vík og Höfn. Í þessu bréfi segir Lögreglufélag Suðurlands að þessi embætti hafi verið að safna upp fjárhagsvanda, velta honum milli ára og nú sé svo komið að við honum sé brugðist með því að fækka lögreglumönnum í þessum landstóru embættum. Síðar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er skoðun stjórnar Lögreglufélags Suðurlands að embætti lögreglustjóranna á félagssvæði þess hafi til margra ára verið vanmetin hvað varðar fjár- og mannaflaþörf til löggæslu af hálfu ríkisvaldsins og skilur afstöðu lögreglustjóranna að grípa til þessara neyðarúrræða í baráttu sinni við fjárhagsvandann sem til kominn er vegna þess vanmats fjárveitingavaldsins og er það óviðunandi með öllu að gripið sé til þessara ráða að fækka lögreglumönnum.``

Herra forseti. Vandinn er tvíþættur: Annars vegar viðvarandi fjárþörf til að sinna löggæslu á viðunandi hátt á þessu stóra landsvæði. Við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs viljum að á þessum vanda verði tekið við afgreiðslu fjárlaga. Hins vegar er einnig um að ræða tímabundinn vanda sem þyrfti að leysa með fjárveitingu til þessara embætta. Ég vil vekja athygli á mjög athyglisverðu viðhorfi sem kemur fram hjá formanni Landssambands lögreglumanna í Formannshorninu í Lögreglumanninum, síðasta tölublaði, en þar setur hann þær fjárupphæðir sem þyrftu að koma til sögunnar í samhengi við fjárausturinn í NATO og vegna komu Kínaforseta. Það er athyglisverð lesning.