Staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 12:47:25 (672)

2002-10-17 12:47:25# 128. lþ. 13.95 fundur 180#B staða löggæslumála frá Höfn til Keflavíkur# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[12:47]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að hreyfa þessu mikla og viðkvæma máli. Það má segja að umræða um löggæslu sé orðin nokkuð viðvarandi bæði í fjölmiðlum, á sveitarstjórnarvettvangi og hér í sölum Alþingis. Hvað segir það okkur? Það segir okkur einfaldlega að almenningur hefur áhyggjur af stöðu þeirra mála. Hins vegar heyrist á móti að verið sé að fjölga störfum á þessu sviði þannig að þar er augljós ágreiningur. Menn spyrja jafnvel hvort sú fjölgun nái einungis til skrifstofustarfa en ekki á akrinum, ef þannig má að orði kveða.

Tilefni þessarar umræðu er bréf frá Sambandi lögreglumanna á Suðurlandi. Sömu áhyggjur bera löggæslumenn á Suðurnesjum. Þeir telja að að þeim sé saumað og starfsskilyrði séu ekki með þeim hætti sem þeir vildu. Sama hefur komið fram hjá sveitarstjórnum á Suðurnesjum. Ég nefni sveitarstjórnir í Garði, Sandgerði og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum þar sem menn benda á að grenndarlöggæsla innan héraðs sé afskaplega hverfandi á stöðum eins og í Garði og Sandgerði þar sem búa þó um 2.000 manns.

Ég vil í þessu sambandi líka vekja athygli á því að það er ekki nóg miða við íbúa sem hafa lögheimili á stöðunum eins og Suðurlandi og Suðurnesjum. Þar þarf að bæta við þeim þúsundum sem eru þar á ferðinni vegna sumarbústaða og vegna ferða til Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Menn hafa sem sagt áhyggjur. Fólk vill öryggi og síðast en ekki síst aukna grenndarlöggæslu sem almenningur eins og hæstv. dómsmrh. hefur trú á.

Ég vil um leið vekja athygli á því að fyrir þinginu liggur nú þáltill. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er 1. flm. að og að ég held þingmenn úr öllum flokkum koma að, þar sem er mælst til þess að yfir þessi mál verði farið með yfirvöldum, með löggæslumönnum, sýslumannsembættum þannig að raunveruleg lausn og sátt um þetta mikilvæga mál náist en ekki sú spenna sem nú er ríkjandi.