Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 13:45:20 (681)

2002-10-17 13:45:20# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Íraksmálið er nú í mjög erfiðri stöðu. Það er mikilvægt að vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna snúi aftur til Íraks sem fyrst og fái að starfa þar algjörlega óhindrað á grundvelli ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Til að treysta vopnaeftirlitið er nauðsynlegt að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykki afdráttarlausa ályktun sem tryggi hindrunarlaust vopnaeftirlit alls staðar í Írak þannig að hvorki íbúum landsins né nágrannaríkjum Íraks standi ógn af gereyðingarvopnum þess. Þetta tel ég vera kjarna málsins.

Herra forseti. Það er mikilvægt að náin samvinna takist á milli vopnaeftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna og stjórnvalda í Írak um framkvæmd vopnaeftirlitsins og að við lok þess eftirlits verði staðfest að Írakar hafi hvorki undir höndum né séu að þróa gereyðingarvopn. Það verður að vera hafið yfir allan efa og staðfest af öryggisráðinu að engin gereyðingarvopn sé að því loknu að finna í Írak. Að fenginni slíkri staðfestingu ætti ekki að þurfa að koma til hernaðaraðgerða gegn Íraksstjórn á grundvelli umboðs öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.