Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 13:55:58 (686)

2002-10-17 13:55:58# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[13:55]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Það er mikið álitamál hvernig rétt er að standa að því að ná fram stöðugleika og friði í Miðausturlöndum. Rétt er að geta þess að þó að Vesturlönd hafi um hríð reynt að eiga eðlileg samskipti við stjórnvöld í Írak, undir forustu Saddams Husseins, þá hefur reynslan af þeim tilraunum verið ákaflega dapurleg þó þær hafi staðið nokkuð lengi. Það verður að viðurkennast að innrás Íraka í Kúveit á sínum tíma sannaði endanlega fyrir forustumönnum allra vestrænna ríkja að ekki dygði lengur að bregðast ekki við árásargirni þeirra sem Írak hafa ráðið og ráða enn. Og alla tíð síðan hafa menn rætt það af mikilli alvöru hvernig verði knúið á um stjórnarskipti í Írak til þess að reyna að tryggja frið og stöðugleika í þeim heimshluta.

Það verður að segjast eins og er að framkoma þeirra stjórnvalda hefur verið með öllum ólíkindum. Sennilega er það svo að ekkert ríki annað í veröldinni hefur jafnoft beitt gereyðingarvopnum af einhverju tagi og Írak --- ekki aðeins gegn grannríkjum heldur líka gegn eigin þegnum --- á þeim fáu áratugum sem þessir menn hafa þar ráðið málum.

Það er ekki að ástæðulausu að menn hafa reynt að ganga lengra en gert var í lyktum Persaflóastríðsins til að ná fram breytingum á stjórnarháttum þessa ríkis sem skiptir að sjálfsögðu talsvert miklu í sínum heimshluta svo fjölmennt sem það er. En það er rétt að geta þess að vopnaeftirlit Sameinuðu þjóðanna gagnvart Írak hefur ekki gengið fram núna í heil fjögur ár vegna andstöðu írakskra stjórnvalda sem fram að því höfðu sífellt reynt að stemma stigu við framgöngu vopnaeftirlitsmanna. Síðan er vitað að olíuútflutningur Íraka, eftir eðlilegum leiðum og smyglleiðum, er orðinn svo mikill að það er talið að þeir flytji út fyrir jafnvirði þess sem þeir gerðu fyrir daga viðskiptabannsins.

Enn í dag flytja þeir inn matvæli og lyf aðeins að því marki sem þeir gerðu meðan viðskiptabannið var sem strangast. Það er eðlilegt að menn spyrji: Hvað verður um mismuninn á fjármunum? Þess vegna vilja menn að kynna sér að nýju hvort um var að ræða tilraunir eða aðgerðir til að koma aftur upp gereyðingarvopnum innan Íraks og menn telja sig hafa fulla ástæðu til að álykta að svo kunni að vera.