Afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 13:58:16 (687)

2002-10-17 13:58:16# 128. lþ. 13.96 fundur 181#B afstaða íslenskra stjórnvalda til mögulegra hernaðaraðgerða í Írak# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[13:58]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þau svör sem hér voru gefin þó ég hefði vissulega kosið að þau væru bæði skýrari og á annan veg. Mér finnst orðalagið sem hæstv. forsrh. endurtók hér og hefur komið fram áður í ræðum hæstv. ráðherra, utanrrh. og forsrh., um að ekki sé hægt að útiloka að einstök ríki grípi til aðgerða, halda öllu opnu í sambandi við að styðja eða a.m.k. láta ómótmælt þeim ásetningi Bandaríkjanna að gera það sem þeim sýnist í þessu máli, hvort sem þeir fá til þess uppáskrift öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna eða ekki.

Ég hefði talið að Ísland ætti a.m.k. afdráttarlaust að lýsa sig fylgjandi tveggja þrepa framgangi málsins á vettvangi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, með öðrum orðum að leggjast gegn því að menn fengju opnar heimildir til hernaðaraðgerða fyrir fram, en það er eins og kunnugt er vilji Bandaríkjamanna.

Varðandi áhrif þess ef ráðist verður inn í Írak á deilur Ísraelsmanna og Palestínumanna er óhjákvæmilegt að horfast í augu við þá staðreynd að nú liggur fyrir að Ísraelsmenn áskilja sér rétt til þess að svara fyrir sig, öfugt við það sem lá fyrir áður en Persaflóaátökin hófust 1991. Þá höfðu bandamenn gengið frá því við Ísraelsmenn að þeir mundu ekki svara tilraunum Íraka til þess að draga þá inn í átökin. Og það vita allir sem eitthvað hafa sett sig inn í ástand mála á því svæði að nógu hættulegt og rafmagnað er ástandið fyrir þó ekki bættist við að Ísraelar blönduðu sér í leikinn og réðust á arabaþjóð, sem gæti aftur leitt til keðjuverkunar í þeim heimshluta.

Herra forseti. Það er að vísu rétt að Ísland á ekki atkvæðisrétt í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og þarf því ekki sem slíkt að taka pólitíska ábyrgð á atkvæði sínu þar inni. En við hljótum að ætlast til þess að íslensk stjórnvöld hafi skýra afstöðu í stórmáli af þessu tagi og sá veruleiki gæti bankað upp á að Ísland yrði t.d. spurt um hvort aðstaða hér fengist nýtt í þágu mögulegra aðgerða. Þá hefðum við gjarnan viljað vita fyrir fram að íslensk stjórnvöld muni hafna slíku.