Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 14:03:28 (689)

2002-10-17 14:03:28# 128. lþ. 13.5 fundur 15. mál: #A sveitarstjórnarlög# (íbúaþing) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[14:03]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við tökum nú til við að ræða aftur frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem fjallar um íbúaþing og 1. flm. þess er hv. þm. Margrét Frímannsdóttir.

Við ræddum örlítið í morgun þegar við vorum búin að opna umræðuna um þetta mál sem ég tel í sjálfu sér vera allrar athygli vert og vona satt að segja að það fái svolitla umfjöllun þannig að t.d. fjölmiðlar taki það aðeins upp á sína arma að ræða betur þessi íbúaþing, hlutverk þeirra og hugmyndafræði og skoða kannski ofan í kjölinn þau íbúaþing sem hafa verið haldin hér á landi, en eins og hv. 1. flm. frv. gat um í ræðu sinni í morgun hafa þau verið þó nokkur. Hún nefndi til sögunnar fyrirtækið Alta, ráðgjafarfyrirtæki sem hefur sinnt íbúaþingum sérstaklega. Fyrirtækið hefur gefið út afar gagnlega bæklinga sem fjalla um íbúaþing eða samráðsskipulag og þetta eru hin gagnlegustu plögg og satt að segja hefur verið afar gagnlegt og merkilegt að fá að fylgjast með þeim íbúaþingum sem hér hafa verið haldin.

Ég vil halda því fram, herra forseti, að lýðræði af þessu tagi sé lýðræði í verki og það skili sér á mjög öflugan hátt og á mjög skömmum tíma út í samfélagið, því það er í gegnum slíkan mekanisma sem einstaklingarnir í samfélaginu finna að þeir skipta máli. Þannig má t.d. nefna íbúaþingið Undir Esjunni sem var opið þing um vistvæna byggð og haldið var í janúar sl. Það þing fjallaði um skipulagsmál. Á þingið voru boðaðir allir þegnar samfélagsins, ungir sem aldnir, og þangað kom fjöldinn allur af fólki og vann þarna heilan dag að því að búa sér til eða gera sér grein fyrir hugmyndum sínum um skipulagsmál á því svæði. Þetta var afar skapandi vinna og meginniðurstaða þess íbúaþings var sú í stuttu máli sú að íbúar á Kjalarnesi vilja efla vistvæna lífshætti og taka þátt í tilraunaverkefnum í þá átt. Eftir þetta þing voru menn sammála um að áhersla á byggð á Kjalarnesi ætti að þróast í sátt við náttúruna og að leggja ætti áherslu á að svæðið hefði ákveðna sérstöðu sem dreifbýli í jaðri borgarinnar og fólk kallaði eftir formlegri stefnumótun af hálfu borgaryfirvalda sem tæki mið af þeim áherslum sem íbúaþingið hafði sett niður í plögg sín.

Þess má geta, herra forseti, að flokkarnir þrír sem standa að Reykjavíkurlistanum hafa gert í málefnasamningi sínum, sem starfað er eftir í borgarstjórn Reykjavíkur, sérstakan kafla sem fjallar um íbúalýðræði og þar eru íbúaþingin einmitt mjög veigamikill þáttur. Ég geri því ráð fyrir að við komum mjög fljótlega til með að sjá þennan þátt lýðræðisins verða afar virkan í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar.

Það sama er hægt að segja um fleiri sveitarfélög. Sérstaklega þó þau sveitarfélög sem hafa gerst aðilar að staðardagskrárverkefninu sem hv. þm. Þuríður Backman nefndi hér í morgun og ég get tekið undir orð hennar í þeim efnum, að auðvitað hefði mátt sjá í grg. með frv. betur gerða grein fyrir staðardagskrárverkefninu og þessum þætti í því verkefni. En nú er svo komið að ein 27 eða jafnvel fleiri sveitarfélög á Íslandi eru búin að undirrita Ólafsvíkuryfirlýsinguna sem er starfslýsing staðardagskrárverkefnisins, en hún var samin eða samþykkt af þátttakendum á landsráðstefnu um Staðardagskrá 21 í Ólafsvík þann 13. október árið 2000.

Til þess að gera hv. þingheimi grein fyrir því hvernig íbúalýðræði eru gerð skil í Ólafsvíkuryfirlýsingunni, þá vil ég fá, með leyfi forseta, að vitna til 2. gr. þeirrar yfirlýsingar, en hún er svohljóðandi:

,,Forsendur okkar eru:

1. Skilaboð heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó 1992 til sveitarstjórna um að hafa áhrif á íbúa, samtök og atvinnulíf með staðbundnum framkvæmdaáætlunum um sjálfbæra þróun (Staðardagskrá 21).

2. Að sveitarstjórnir eigi að bera ábyrgð á að virkja íbúana í þessu starfi og tryggja þannig þátttöku þeirra og aðild að ákvarðanatöku.

3. Að sérhvert samfélag gegni lykilhlutverki í að gera sjálfbæra þróun að veruleika og að umhverfis- og þróunarmálum sé best fyrir komið með þátttöku þeirra sem eiga beinna hagsmuna að gæta.

4. Að skilaboðin frá Ríó verði til þess að efla lýðræði í íslenskum byggðum.``

Undir þetta hefur meiri hluti sveitarstjórnarmanna á Íslandi skrifað.

Ég held ég fari með rétt mál, herra forseti, þegar ég segi að 67% landsmanna séu núna búsett í sveitarfélögum sem eiga aðild að Staðardagskrá 21.

Ég vil því meina að sveitarstjórnarmenn séu sér meðvitaðir um þetta. Þeir eru búnir að samþykkja Ólafsvíkuryfirlýsinguna. Mörg sveitarfélög eru búin að leggja grunninn að slíku starfi og það er afar ánægjulegt, herra forseti, að sjá það líf sem hefur kviknað undir merkjum staðardagskrárverkefnisins.

Hvort þörf sé á því að setja lagagrein af því tagi sem hér er lagt til. Mér finnst allt í lagi að það sé skoðað og mér finnst bara sjálfsagt mál að farið sé yfir þetta á öflugan hátt í nefndum þingsins. Mér finnst líka veigamikið og mjög þýðingarmikið að fjölmiðlar á Íslandi bregðist nú við og taki þessi mál þannig til umfjöllunar að þeim séu gerð það góð skil að bæði sveitarstjórnarmenn finni að fjölmiðlar veita þeim svolítinn stuðning eða þrýsting í þessum efnum og svo líka bara til þess að skýra fyrir íbúum landsins hver réttur þeirra er, því auðvitað hafa verið brögð að því að sveitarstjórnir vítt um land, jafnvel þær sem undirritað hafa Ólafsvíkuryfirlýsinguna, hafa síðan ekki sinnt því að koma skilaboðum sínum nægilega vel á framfæri til íbúa samfélaga sinna.

Ég held að í þessu máli sé afar mikilvægt að við fjöllum um þetta á öllum vígstöðvum þar sem við mögulega getum höndum undir komið og þess vegna ekki síst hér á Alþingi. Ég fagna því að þessi tillaga skuli hér fram komin og við ættum að sjá til þess að á henni verði tekið af afli í þingnefndum og að hv. þm. haldi þá líka áfram að ræða þá hugmyndafræði sem að baki liggur.