Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 14:44:45 (694)

2002-10-17 14:44:45# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Það er kannski búið að segja það sem segja þarf um þessa þáltill. um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Ég vil þó segja í byrjun að það veldur mér vonbrigðum að ekki skuli fleiri taka þátt í þessari umræðu. Hún er afar brýn.

Í tillögunni er komið inn á atriði sem brenna á atvinnurekstrinum hér á landi, m.a. kostnað við að stofna til atvinnurekstrar og aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt á það mjög ríka áherslu að öll atvinnuþróunarfélög verði efld og verði bakstuðningur fyrir þá sem vilja stofna til atvinnurekstrar af ýmsu tagi í landinu. Sá stuðningur er afar rýr eins og stendur og sannarlega þörf á að koma þar að málum.

[14:45]

Annað atriði í þessari þáltill. er aðgengi smáatvinnurekstrar að fjármagni og nauðsynlegri fjármálaþjónustu. Það er aldeilis stórt mál sem hefur verið til umfjöllunar í þinginu, þ.e. angi af því er ferli ríkisstjórnarinnar hvað varðar einkavæðingu fjármálastofnana og þar með ríkisbankanna. Þarna er virkilegur þrándur í götu sem smá og meðalstór fyrirtæki finna fyrir úti um allt land. Það er orðið miklu erfiðara að fjármagna allan rekstur og hér um bil ómögulegt fyrir marga að fá nýtt fjármagn til nýrra fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðis. Það er m.a. ástæðan fyrir því að við höfum lagt ríka áherslu á það hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði að til sé ríkisrekinn banki sem hafi það markmið að standa við bakið á slíkum atvinnurekstri hvar sem hann er stundaður á landinu. Þess vegna er það mikilvægur punktur í þessari þáltill. hvernig sem með verður farið. Eins og öllum er kunnugt er stefna ríkisstjórnarinnar allt önnur. Hún stefnir í einkavæðingu á fjármagnsmarkaði sem hefur skelfilegar afleiðingar í för með sér og hindrar raunar þá framþróun sem við sjáum fyrir okkur að hér gæti orðið á grunni þessarar þáltill.

Það er líka nauðsynlegt að styðja við þá aðila sem þegar eru komnir með framleiðsluvörur í hendur til markaðssetningar í formi fjárframlaga til atvinnuþróunarfyrirtækja. Það er dýrt ferli en hægt er að stuðla að mörgum góðum uppbyggilegum hlutum í atvinnurekstri þjóðarinnar ef menn fá byrjunarframlög til þess að geta staðið í slíkum rekstri. Við eigum gríðarlega möguleika í þessu stóra landi okkar til fjölbreytileika í atvinnulífinu. Fjölbreytileiki í atvinnulífinu er stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við viljum hafa flóru lítilla og meðalstórra fyrirtækja í landinu og teljum að það sé liður í að skapa þá samfélagslegu breidd sem er hverju samfélagi nauðsynleg. Það er þvert á stefnu ríkisstjórnarflokkanna sem ástunda stóriðjustefnu, stórfyrirtækjastefnu sem er af allt öðrum toga en það sem við tölum fyrir.

Við töluðum í morgun um þáltill. um vatn. Þar eru gríðarlegir möguleikar fyrir hendi hvað varðar útflutning ef vel er á málum haldið. Þar voru ræddar upphæðir upp á milljarða og milljarðatugi sem gætu nýst íslensku samfélagi ef menn einhentu sér í að kortleggja og nýta þá möguleika sem fyrir hendi eru, t.d. stórfelldan vatnsútflutning til iðnaðarnota. Við erum með ýmsa vaxtarmöguleika, eins og í fiskeldismálum. Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt fram þáltill. um t.d. stofnstyrki sem ástundaðir eru til uppbyggingar atvinnulífsins í öðrum löndum, stofnstyrki til þess að koma upp fiskeldisfyrirtækjum til eldis kaldsjávarfiska. Við erum með brodda af þessu tagi. Norður í Eyjafirði eru framleidd u.þ.b. 400 þús. lúðuseiði sem að langmestu leyti eru flutt til útlanda til áframeldis og þannig mætti lengi telja. Gróður landsins og afurðir sjávarins eru grunnhráefni með fjölþættum möguleikum til atvinnuuppbyggingar í þessu landi.

Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á er það reynsla allra þjóða að það er fjölbreytileikinn í flóru fyrirtækja sem hefur skapað langmesta framþróun í öllum löndum sem við berum okkur saman við. Þess vegna leggur Vinstri hreyfingin -- grænt framboð fram þáltill. til atvinnuuppbyggingar sem hefur aðra sýn, aðrar áherslur, en núverandi ríkisstjórnarflokkar keyra, að vísu með dyggum stuðningi aðila innan stjórnarandstöðunnar líka. Stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í atvinnumálum byggir á því að virkja frumkvæði einstaklingsins og virkja fjölbreytileikann sem býr í samfélagi okkar, hvað varðar einstaklinga og fjölskyldur þeirra sem hugsa til atvinnuuppbyggingar til hagsbóta fyrir landið og þjóðina alla.