Aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:08:26 (697)

2002-10-17 15:08:26# 128. lþ. 13.6 fundur 16. mál: #A aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Getur nokkuð gott komið frá Nazaret? Getur nokkuð gott komið frá Evrópusambandinu? Jú, jú, jú. Það kemur ýmislegt gott frá Evrópusambandinu. Ég held reyndar að kannski sé svolítill munur á nálgun minni og flokkssystkina minna og hv. þingmanns og systkina hans stundum. Við reynum alltaf að sjá bæði kost og löst á Evrópusambandinu. Við erum alveg ófeimin við, eins og þessi tillaga er til marks um, að horfa til þess sem okkur sýnist vera skynsamlega gert þar og bendum á þann möguleika einmitt í rökstuðningi okkar fyrir því að við þurfum ekki endilega að ganga í Evrópusambandið til að horfa til þess sem þar er vel gert. Við getum tekið það upp sem okkur sýnist og er til bóta eins og við höfum lengi gert. Við höfum tekið upp mikið úr velferðarlöggjöf hinna Norðurlandanna án þess að ganga í Norðurlöndin. Við höfum kópíerað heilmikið af sænskri velferðarlöggjöf án þess að ganga í Svíþjóð. Er það ekki, hv. þingmaður?

Alveg nákvæmlega eins er þetta með Evrópusambandið. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að menn skoði fordóma- og hleypidómalaust hvernig menn standa að málum í þessum efnum innan Evrópusambandsins eins og annars staðar og dragi dóm af því. Reyndar þarf ekki að sækja vatnið yfir lækinn, það þarf ekki að fara nema út í íslenska þjóðfélagið og a.m.k. ekki nema til Norðurlandanna því að í raun hafa Norðurlöndin, mörg hver, eins og ég fór yfir áðan í ræðu minni verið á undan frekar en á eftir í þessum efnum. Ég hygg að bæði Danir og Svíar t.d. og Finnar núna á seinni árum hafi verið gríðarlega öflugir í ýmiss konar starfsemi af þessu tagi.

Það er alveg hárrétt að skipta þarf um ríkisstjórn og þetta gæti orðið einn liðurinn í skynsamlegum áherslubreytingum í þeim efnum, þ.e. að horfa meira til fjölbreytni í atvinnulífinu. Ég er alveg sammála hv. þingmanni í þeim efnum. En ég er ekki svo upptekinn af því núna strax á haustdögum að ég hugsi ekki um neitt annað en að skipta um ríkisstjórn eins og mér finnst stundum að hv. þm. Össur Skarphéðinsson geri. Ég held að við verðum bara að sjá hvernig aðstæður verða þegar þar að kemur en þetta yrði a.m.k. ekki ásteytingarsteinn í þeim efnum. Það er ljóst.