Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:41:30 (704)

2002-10-17 15:41:30# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:41]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég og hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson erum sammála um þessi atriði enda komum við báðir af landsbyggðinni og vitum hvernig þetta brennur á fólki. Við finnum hvernig vöruverð er miklu hærra þar en á höfuðborgarsvæðinu. Við erum sammála um að flutningskostnaðurinn er stór þáttur í þessu, eins og við vitum og hv. þm. kom inn á.

Það er auðvitað alveg hárrétt að vafalaust er það einn þáttur af stórhækkun flutningsgjalda að samþjöppun eykst og samkeppni minnkar. Það er alveg ljóst. Við sjáum að tvær meginblokkir sjá um flutningana í dag, þ.e. Flytjandi og Landflutningar -- Samskip. Flytjandi boðaði nú um mitt sumar 7% hækkun á flutningskostnaði. Ég vil samt sem áður halda því til haga að langstærstu útgjöld þessara flutningsfyrirtækja eru í formi þungaskatts. Ég er ekki endilega viss um að flutningsfyrirtækin séu of sæl af sinni afkomu, og tel mig reyndar hafa um það upplýsingar. Það styður það sem ég er hér að segja, ríkisvaldið sogar fyrst og fremst til sín sífellt meira. Þrátt fyrir hin háu flutningsgjöld berjast flutningsfyrirtækin jafnvel í bökkum. Ég tek það skýrt fram að ég þekki ekki rekstrarafkomu þeirra. En auðvitað skiptir líka máli að strandsiglingum hefur verið hætt og flutningurinn er kominn meira upp á landið.

Mér þótti t.d. mjög athyglisvert á fundi fjárln. með hreppsnefnd Þórshafnarhrepps ekki alls fyrir löngu þegar einn rekstrarstjóri þar sagði okkur að það kostaði álíka mikið að flytja einn gám með bíl frá Þórshöfn til Húsavíkur til útflutnings eins og að flytja viðkomandi gám frá Rotterdam í Hollandi til Íslands.