Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:48:16 (707)

2002-10-17 15:48:16# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Eitt af því sem einkennt hefur núverandi ríkisstjórn er vaxandi ójöfnuður. Sá ójöfnuður birtist ekki síst í að íbúar landsbyggðarinnar búa við snöggtum verri og versnandi kjör en íbúar á hinu þéttbýla suðvesturhorni landsins. Jöfnun lífskjara er þess vegna meginbyggðamálið í dag. Í ljós kemur, þegar skoðaðar eru þær skýrslur sem gerðar hafa verið um ástæður þess að fólk er að flytja af þeim svæðum sem skilgreind hafa verið sem hættusvæði í byggðalegu tilliti, að það sem fólkið er að flýja eru fyrst og fremst hlutir á borð við þá sem hér hafa verið til umræðu. Lífskjör og lífskjararýrnun og hækkandi verðlag. Þetta gerir það að verkum að íbúar landsbyggðarinnar una sínum hlut illa. Þetta er það sem þeir setja í annað sætið á lista yfir orsakir þess að þeir fara í burtu.

Til marks um hvernig ríkisstjórnin hefur tekið á málum má benda á að í hennar tíð hefur þessi ójöfnuður farið vaxandi. Í hennar tíð hefur þungaskattur hækkað og af þeim völdum hefur samkeppnisstaða fyrirtækja á landsbyggðinni rýrnað og vöruverð þar hækkað. Þetta hefur leitt til þess að fólk hefur í vaxandi mæli á síðasta áratug flutt búferlum. Sumir tala um byggðaröskun, aðrir um byggðaflótta.

Hvað sem veldur, herra forseti, þá tala staðreyndirnar sínu máli. Þær staðreyndir sem við höfum fyrir framan okkur eru þessar: Í hverri einustu viku og hverjum einasta mánuði á síðustu 10 árum hafa 6 fjögurra manna fjölskyldur flutt af landsbyggðinni til Reykjavíkur. Þetta er líka mál sem skiptir okkur í þéttbýlinu máli, ekki bara vegna þess að við viljum halda landinu í byggð heldur vegna þess að það kostar mikla fjármuni að taka á móti þessu fólki og byggja upp svæði fyrir nýjar íbúðir og ný hús. Peningarnir sem í það fara eru ekki notaðir til viðhalds og annarrar uppbyggingar á þéttbýlissvæðunum. Ég nefni þetta, herra forseti, vegna þess að landsbyggðin og þéttbýlið eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í þessum efnum.

Ég vil í upphafi máls míns, herra forseti, þakka félaga mínum Kristjáni L. Möller fyrir þá tillögu sem hann hefur haft forgöngu um. Ég held að það yrði ákaflega stórt skref, ef samþykkt verður, til þess að grafast fyrir um rætur þessa ójöfnuðar og jafnframt að benda á leiðir til þess að leiðrétta hann. Ég vil ekki síst þakka hv. þm. fyrir þá miklu vinnu sem hann hefur lagt í að gera sérstaka könnun á vöruverði á landsbyggðinni. Hv. þm. Kristján L. Möller hefur farið vítt og breitt um landið og hefur kannað verðlag í 29 verslunum, á 10 nauðsynjavörum. Þetta hefur hann borið saman við verðlag á þessum varningi í stórverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöðurnar eru sláandi. Í ljós kemur að fólk á landsbyggðinni getur þurft að borga yfir 100% meira fyrir nauðsynjavarning en fólk á þéttbýlissvæðunum. Þetta skiptir ákaflega miklu máli, herra forseti.

Okkur sem stöndum í að búa til leikreglurnar fyrir samfélagið sem orðið hefur til í þessu landi ber skylda til að gera það með þeim hætti að borgararnir búi við sem mest réttlæti. Þegar við skoðum með hvaða hætti vöruverð hefur þróast á landsbyggðinni er hægt að benda á þætti sem ekki er hægt að rekja til aðgerða stjórnvalda. Rekstrareiningar á landsbyggðinni eru t.d. óhagkvæmar. Það eitt leiðir til þess að vöruverð verður hærra. Ég tek eftir því líka í greinargerð hv. þm. Kristjáns Möllers með tillögunni að innkaupsverð til kaupmanna á landsbyggðinni er töluvert hærra en vænta má miðað við það sem gengur og gerist á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Þetta eru auðvitað hlutir sem erfitt er fyrir ríkisstjórn og stjórnvöld hverju sinni að grípa inn í.

En það sem er sláandi, herra forseti, er tvennt. Ríkisvaldið hefur á tveimur stigum verðlagningarinnar komið inn í með vaxandi þunga. Aðgerðir hafa verið samþykktar sem beinlínis leiða til þess að vöruverð á landsbyggðinni hefur hækkað. Í fyrsta lagi blasir við að hækkun þungaskatts af völdum þessarar ríkisstjórnar hefur leitt til þess að flutningskostnaður hefur orðið mjög hár, allt of hár. Það skiptir verulega miklu máli. Það skiptir líka máli að í þessari tillögu sem þingmenn Samfylkingarinnar flytja er bent á leiðir sem aðrar þjóðir hafa farið með góðum árangri til að draga úr þessu. Það er t.d. bent á að í Noregi er landinu skipt í mismunandi svæði og þungaskattur mismunandi. Þetta væri hægt að gera á Íslandi með þeim hætti að þungaskattur yrði minni eftir því sem fjær dregur frá höfuðborgarsvæðinu. Það er ákaflega nauðsynlegt að menn hugi að þessu þegar það blasir við að samkvæmt rannsókn Kristjáns Möllers, þingmanns Samfylkingarinnar, eru kaupmenn á landsbyggðinni síður en svo að skara eld að eigin köku. Svo virðist sem þeir fylgi ákaflega hóflegri verðlagningarstefnu og oft á tíðum er hægt að sýna fram á að það sem þeir fá í sinn vasa er um það bil hið sama og borgað er fyrir flutning á vörunni. Jafnframt blasir við að ríkið græðir mest. Það er ekki aðeins þungaskatturinn sem ríkið stendur fyrir sem gerir að verkum að lífsjörin að þessu leyti, eins og þau speglast í matarverði, eru ójöfn. Það er líka hægt að halda því fram með nokkuð góðum rökum að ríkið ýti upp verði á landsbyggðinni með virðisaukaskattinum.

Það er sláandi, herra forseti, að í þeim útreikningum sem hv. þm. Kristján Möller leggur fyrir blasir við að fyrir tiltekna vöruflokka greiða höfuðborgarbúar ríflega 2.090 kr. Landsbyggðarbúinn þarf að greiða miklu hærra verð, þ.e. 3.379 kr. fyrir þessa sömu vöru. Á tveimur stigum verðlagningar kemur ríkið inn í þetta. Ég nefndi áðan þungaskattinn en jafnframt verður að skoða virðisaukaskattinn. Virðisaukaskatturinn sem höfuðborgarbúinn þarf að borga af þessari matarkörfu er 299 kr. Landsbyggðarbúinn greiðir 58% meira til ríkisins, þ.e. 471 kr.

Nú er kannski ekki hægt eins og með því að smella fingri að benda bara á leiðir til að draga úr þessu. Hins vegar er alveg ljóst, herra forseti, að hér er um sláandi ranglæti að ræða, hér er um sláandi ójafnrétti að ræða og það má beinlínis rekja til íslenska ríkisins. Þess vegna hlýtur sú skylda að hvíla á íslenska ríkinu að reyna að leita leiða til að draga úr þessu misrétti. Enginn þingmaður sem hér situr, í hvaða flokki sem hann er, vill stuðla að því að til verði einhvers konar kerfi sem mismuni íbúum landsins eftir því hvar þeir búa.

Hv. þm. Kristján Möller hefur sýnt fram á að ákvarðanirnar sem við höfum tekið hafi leitt til þessarar mismunar. Þess vegna hlýtur sú skylda að hvíla á okkur, þingmönnum sem hér sitjum, að finna leiðir til að draga úr þessu og bæta fyrir þessi mistök því að það er ekki hægt að kalla þetta annað en mistök.