Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 15:56:49 (708)

2002-10-17 15:56:49# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[15:56]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það vekur auðvitað athygli að þingmenn stjórnarflokkanna skuli ekki storma í ræðustól í dag og taka þátt í þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað og varða uppbyggingu í landinu ekki síður en lífskjörin. Það vekur athygli, sökum þess að við höfum átt þess kost í upphafi þings að ræða mjög mörg mikilvæg mál er varða lífskjör í landinu, hve lítill áhugi hefur verið á því af hálfu stjórnarflokkanna að taka þátt í þeirri umræðu.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, áður en ég vík að því máli sem hér er til umræðu, að koma inn á það mál sem rætt var hér á undan, um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum og þeim athugunum sem þar eru lagðar til. Þær athuganir sem þar er spurt um vekja auðvitað þær hugsanir að svör við þeim ættu fyrir löngu að liggja fyrir. Það ætti að vera fyrirliggjandi vitneskja um þessi atriði sem skipta svo miklu máli, annars vegar um umhverfi smárra fyrirtækja og fyrirtækja á landsbyggðinni og hins vegar um hvað veldur háu matarverði. Það virðist ekki liggja fyrir.

Hér er rekin skattapólitík sem er í engu samræmi við þarfirnar. Hún tekur ekki mið af mismunandi atvinnurekstri og þörfum hans og ekki hvernig hún hittir fyrir ólíka tekjuhópa í landinu. Þegar maður fer að velta fyrir sér því sem hefur verið að gerast undanfarin ár hjá þessari ríkisstjórn í skattamálum og öðrum aðgerðum fær maður á tilfinninguna að það sé mjög tilviljanakennt.

Ég tek undir orð formanns Samfylkingarinnar, Össurar Skarphéðinssonar, sem hann lét falla við umræðuna um tillögu um að skoða vöruverð, rekstrar- og samkeppnisstöðu atvinnurekenda á landsbyggðinni. Í fyrsta lagi erum við hér að tala um mikilvægan þátt sem snýr að lífskjörum og í öðru lagi um mismunun sem er alveg greinileg. Þetta mál er framhald á þeirri umræðu sem sú er hér stendur hóf í upphafi þessa þings, að leita orsaka hins háa matarverðs á Íslandi.

Ljóst er að skoða þarf hvaða þættir hafa áhrif á vöruverð og rekstrarsamkeppnisstöðu atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni. Lagt er til að sérstök nefnd skoði m.a. áhrif þungaskatts. Í greinargerðinni er m.a. nefnd hækkun tryggingagjalds og í tengslum við það vaknar spurningin: Af hverju hefur Byggðastofnun ekki verið að skoða þessi mál? Hver eru verkefni Byggðastofnunar? Þegar við hugsum um Byggðastofnun erum við yfirleitt að hugsa um fjárframlög til eins eða annars mikilvægs verkefnis á landsbyggðinni. En ætti Byggðastofnun ekki að skoða þróunina og hvað valdi óæskilegri þróun sem hefur mikil áhrif á búseturöskun? Af hverju höfum við ekki fengið skýrslur um svona hluti frá Byggðastofnun? Getur verið að það að atvinnumálum er stjórnað af a.m.k. þremur ráðuneytum ráði einhverju hér um? Getur verið að e.t.v. sé hægt að skrifa hina takmörkuðu athugun á því hvernig skattheimta hittir fyrir ólík fyrirtæki og ónóga könnun á rekstrarskilyrðum fyrirtækja á að enginn einn hefur borið ábyrgð á að skoða þessi mál?

Í greinargerð er vikið að tryggingagjaldinu. Í tillögum frá samþykkt Sambands sveitarfélaga á Norðurl. v. segir að til að styrkja stoðir atvinnulífsins á landsbyggðinni sé lagt til að atvinnustarfsemi utan 100 km radíuss frá Lækjartorgi verði undanþegin almenna tryggingagjaldinu sem er nú 3,99%. Þetta mundi stuðla að flutningi atvinnustarfsemi út á land. Ég minni á umræðuna um skattamál sl. vetur. Þar lagðist Samfylkingin gegn því að lækka skattaprósentuna flatt á fyrirtæki og því að leggja tryggingagjaldið á öll fyrirtæki án þess að tillit væri tekið til þess hvort það hitti fyrirtæki illa fyrir, hvort fyrirtæki með litlar tekjur gætu borið þetta tryggingagjald. Á það var blásið.

Það blasir líka við hjá okkur í þéttbýlinu að kaupmaðurinn á horninu er eiginlega alveg horfinn. Það er vegna ójafnrar aðstöðu gagnvart stóru verslunarhringjunum. Nú dregur hv. þm. Samfylkingarinnar, Kristján L. Möller, mjög vel fram að það sem hefur komið fólki á landsbyggðinni til góða er einmitt að þessir verslunarhringir hafa haldið sama verði í þéttbýli og í dreifbýli. Það hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um hvert umhverfi þessara fyrirtækja er og hvernig sýnin á þau getur verið ruglingsleg.

Í Morgunblaðinu í dag er pistill sem fjallar um hátt matarverð. Þar er verið að rifja upp að hæstv. forsrh. talaði um að það væri miður hve mikið fákeppni hefði færst í aukana hér á landi og að talsmenn Sjálfstfl. hefðu veist að Samkeppnisstofnun í þeirri umræðu. Út úr þessari umfjöllun má lesa það að umræðunni hefur verið drepið á dreif. Það sem er athyglisvert er spurningin: Hvað veldur því að stjórnvöld standa jafnráðþrota frammi fyrir háu matvöruverði nú og fyrir þremur árum? Hvers vegna hefur ekkert breyst þrátt fyrir hástemmdar lýsingar á hrikalegu ástandi haustið 1999 og 2000? Er hugsanlegt að hvorki sé við fákeppni né embætti Samkeppnisstofnunar að sakast?

Menn spyrja hvers vegna ráðamenn þjóðarinnar skoði ekki hvað valdi og reyni að taka á þessum málum. Það er enginn vafi á því, virðulegi forseti, að mikilvægt er að skoða hvað veldur háu matarverði. Ég er sannfærð um að þegar slík athugun hefur farið fram kemur í ljós að stjórnvaldsaðgerðir þurfi til þess að snúa þeirri þróun við.