Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 16:22:24 (711)

2002-10-17 16:22:24# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[16:22]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég var búinn að geta þess í andsvari að mér fyndist þessi tillaga eiga að fá mikla og góða umfjöllun. Ég tel hana til mikilla bóta. Við getum náttúrlega öll talað okkur rjóð út af því hvernig ástandið er. Við vitum nákvæmlega hvernig það er og höfum vitað til margra ára. Staðreyndin er sú að stór hluti af vandamálinu er pólitísks eðlis. Stærsti hluti hins háa vöruverðs í landinu öllu er innanríkisvandamál. Það hefur komið fram í umræðum á hinu háa Alþingi að við erum stærstu innflytjendur landbúnaðarvöru á heimsverði. Sá innflutningur er t.d. ívið meiri en framleiðslan í landinu þannig að spjótin beinast öll að því sem við erum að gera innan lands.

Ég spurði hv. þm. Kristján L. Möller að því áðan hvort hann gæti t.d. stutt tillögu okkar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um mótaðgerðir sem fælust t.d. í að hefja á ný strandflutninga. Hv. þm. sagðist til í að skoða það mál en alls ekki skipaútgerð á vegum ríkisins. Ég nefni hins vegar að við höfum brugðist við hvað varðar þjónustuflutninga í lofti með því að bjóða út á vegum ríkisins flug á vissa staði sem við viljum halda samgöngum við. Það er stjórnvaldsaðgerð sem kemur fólkinu til góða.

Ég vil nefna að þetta er allt í einum potti hvað varðar vörur og þjónustu. Það var pólitísk aðgerð á sínum tíma að gefa flugið frjálst innan lands. Allir sem skoðuðu þau mál á sínum tíma voru sammála um að það væri óheppileg ráðstöfun vegna þess að það mundi leiða til gríðarlegrar samkeppni sem síðan mundi leiða til fákeppni. Þetta er að gerast á öllum sviðum í samfélaginu.

Tökum heimabæ minn, Akureyri. Þar héldu menn upp á það um nokkurra mánaða skeið að frjáls samkeppni hefði komist á í flugi. Miðaverðið fór niður í 5.500--6.000 kr. Allir vissu að þetta var skammgóður vermir enda kom það á daginn að flugfélögin átu bæði upp eigið fé á örskömmum tíma, á nokkrum missirum. Nú stöndum við eftir með hámarksverð á flugi, yfir 20 þús. kr. Þetta er líka neysluvandamál fyrir landsbyggðina sem kemur ekki bara niður á einstaklingnum sem þarf að ferðast heldur hækkar kostnað fyrirtækja og alla vöru og þjónustu sem fæst í gegnum þetta flug.

Við vorum þeirrar skoðunar að landið þyldi ekki frjálsa samkeppni af þessu tagi og vildum nota einkaleyfisaðferðina þar sem opinberir aðilar hefðu möguleika á að fylgjast með verðlaginu sem þjónustan væri boðin á. Ég nefni sem dæmi verslunina. Það eru ekki nema örfá ár síðan ég, sem borgari á Akureyri, gat farið inn í fyrirtæki sem sáu um vinnslu á kjöti ef mikið lá við og keypt á útsöluverði frá verksmiðjuborði. Þegar fákeppnin hélt innreið sína og stóru birgjarnir fóru að þjarma að framleiðendum kom ég einn góðan veðurdag inn í kjötvinnslu. Þá var mér sagt að verð kjötvinnslunnar, heildsöluverð frá vegg, væri dýrara en að fara út í Bónus eða Nettó. Hvað erum við að gera í þessu stóra samhengi?

Ef við höfum pólitískan vilja til að stýra þessum hlutum, fara ofan í hvar skórinn kreppir og hvernig menn geta komist í þá aðstöðu að kreista menn á þann hátt sem hér virðist gert þá eigum við að taka á því máli. Það er grunnatriði í sambandi við verð á vörum og þjónustu í landinu. Það er ekkert launungarmál að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum beita opinberum stýriaðgerðum til að jafna þessa hluti. Ég árétta enn og aftur: Þetta er pólitísk spurning. Þetta er spurning um það hvernig við viljum stýra þessu pólitískt.

Nú á dögum aðhyllast menn markaðsvæðingu og markaðshyggju. Hún leiðir af sér gríðarlega samkeppni um tíma. Hún leiðir það af sér að stóru aðilarnir brjóta niður á smáu og leiðir af sér fákeppni. Við erum að súpa seyðið af fákeppni. Það er okkar vandamál í öllu þessu dæmi. Ef við viljum laga þessa hluti þurfum við númer eitt, tvö og þrjú að finna leiðir til að jafna leikinn. Það er aðalmálið. Og það er gert með stýriaðgerðum varðandi verslunina. Það er gert með stýriaðgerðum hvað varðar heiðarlega og góða viðskiptahætti o.s.frv. Við vitum vel að stóru birgjarnir kaupa vörur og þjónustu af framleiðendum á verði sem býðst ekki einu sinni frá þeirra söluborði inni í versksmiðjunum til neytenda eins og áður var. Er það ekki orðið eitthvað skrýtið? Hvernig halda menn þá að staða litlu verslananna sé? Þegar ég sem einstaklingur get ekki fengið vöruna á verksmiðjuverði, þá geta þær það að sjálfsögðu ekki heldur. Þetta endurspeglar vandamálið algerlega. Afleiðingin er sú að litlar búðir og þeir sem hafa lítið bolmagn og eru ekki í þessum stóru púllíum sem þrúkka niður verðinu verða ekki aðeins að kaupa vöruna á hærra verði heldur borga þeir fyrir niðurboðið inni við verksmiðjuvegg. Þetta sjá allir sem vilja opna augun fyrir því.

Síðan rekur náttúrlega eitt annað. Stórar lágvöruverslanir eru reknar um allt land, t.d. ef við tökum Eyjafjarðarsvæðið. Öllum er í lófa lagið á Eyjafjarðarsvæðinu að fara til Akureyrar og kaupa sér vörur og þjónustu hjá þeim aðilum sem hafa aðstöðu til að þrúkka niður verðinu og hafa lægra vöruverð. Síðan kemur það niður á smærri verslunum úti í hinum smáu byggðakjörnum sem gerir allt miklu óhagstæðara og erfiðara um vik. Allir þurfa að reka sína búð, borga sín laun o.s.frv.

Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði tökum heils hugar undir að gerð verði úttekt á þessum málum sem verði grunnur að nýrri pólitískri sýn á það hvernig við ætlum að haga okkur. Fákeppnin ríður ekki við einteyming. Hún er í allri þjónustu. Lögð hafa verið drög í því að hún verði í fjarskiptum. Við erum að leggja drög að því að hún verði í orkusölu o.s.frv. Þegar við gerum hlutina meðvitað og við vitum að hverju stefnir með hækkun á vöru og þjónustu, sérstaklega úti í hinum dreifðu byggðum, er ansi hart að þurfa að standa upp og kveinka sér undan því sem fyrirséð var að mundi gerast. Það er t.d. borðleggjandi að ef Landssíminn verður seldur hækkar verð á vöru og þjónustu Símans. Það er líka borðleggjandi að ef rafmagnskerfið verður einkavætt þá hækkar rafmagnsverðið jafnt úti á landi sem í þéttbýli.

Virðulegi forseti. Við styðjum upplýsingaöflun af þessu tagi og viljum eindregið hvetja menn til þess að fara ofan í grunn þessara mála og hafa pólitískt þor til að stýra málum til hagsbóta fyrir landsmenn alla.