Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 17. október 2002, kl. 16:37:27 (715)

2002-10-17 16:37:27# 128. lþ. 13.7 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 128. lþ.

[16:37]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það þarf nú kannski ekki að nota meiri tíma í þetta. Við hv. þm. erum alveg sammála um meginlínurnar. Við höfum verið hlynntir því að styrkja flug til staða sem flugfélögin treysta sér ekki til og við höfum lagt fram þáltill. um enduruppbyggingu strandflutninga. Það má hugsa sér annað form ef menn hryllir við að nota orðin ,,Skipaútgerð ríkisins``. Þá má nota þá aðferð t.d. að bjóða út á sama hátt og gert var með flugið. Það er fær leið.

Sannast sagna er ég ekkert viss um að það yrði óhagstætt fyrir ríkissjóð vegna þess að ef slit á vegum við flutninga væri tekið inn í það dæmi og ávinningurinn af því, bæði verðlagslega séð fyrir þjónustufyrirtæki og einstaklinga úti á landi og fyrir ríkið, er reiknaður út er ég viss um að ekki yrði um mjög háar tölur að tefla.

Mjög margir vöruflokkar henta mjög vel til sjóflutninga vegna þess að margt af því sem verið er að flytja er hægt að geyma nánast endalaust eins og menn vita. Það yrði bara að flokka það. Auðvitað þarf dagvara að fara með bílum. En margt af því sem er verið að flytja, t.d. iðnvarningur og hráefni til iðnaðar, á skilyrðislaust að fara sjóleiðina. Þetta er líka gríðarlega stórt umhverfisspursmál. Það væri nú efni í aðra ræðu í sjálfu sér að fara yfir það. Evrópuþjóðirnar t.d. og Ameríkanar að vissu marki eru markvisst að vinna að því að koma flutningunum af þjóðvegakerfinu og yfir í lestir og skip. Við erum ekkert að finna upp hjólið hér. Við þekkjum þetta allt saman.

Þetta er, eins og ég sagði í ræðu minni, fyrst og fremst spurning um pólitíska sýn. Hér vilja menn láta markaðs- og frumskógarlögmál ráða.

(Forseti (GÁS): Hér voru tæpast á ferðinni andsvör. Þetta er eins konar samkór. En allt að einu er þeim lokið.)