Alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 13:53:28 (726)

2002-10-29 13:53:28# 128. lþ. 15.7 fundur 243. mál: #A alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[13:53]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi máls svo það valdi engum misskilningi að vissulega mun ég styðja þetta mál. En ég verð samt að segja, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, að mér finnst furðulegt að málið skuli koma inn í slíku tímahraki, að hæstv. sjútvrh. sé staddur á þessum fundi og viti ekki hvort hann er áheyrnarfulltrúi eða hvort hann megi taka þátt í störfum fundarins og greiða atkvæði, og þess vegna beri þetta mál hér að. Þegar það er svo líka upplýst að málið hafi dregist vegna þess að hér hafi verið þinghlé í viku fer maður að undrast mjög um skipulag á ferðum og störfum hæstv. sjútvrh. Ég verð samt að lýsa því yfir að ég sakna hans ekkert svakalega þó að hann sé svolítið á flakki.

Það er samt rétt að vekja athygli á ýmsu sem ég held að hv. þm. hefðu gott af að hlýða á þegar við skoðum aðeins þessa tillögu. Hér eru Íslendingar að sækja á um rétt sinn sem við teljum auðvitað sjálfsagðan, rétt um það að við eigum hlutdeild í veiðum sem eru á okkar svæðum, innan okkar lögsögu, og að ekki sé hægt að una því að Ísland sem ríki sé útilokað frá veiðum á þessari fisktegund sem gengur inn í lögsögu okkar.

Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

,,Á vettvangi ráðsins hefur Ísland ítrekað lýst óánægju með núverandi skiptingu veiðiheimilda, sem eingöngu byggist á veiðireynslu og gefur Íslandi þannig engan veiðirétt ...``

Ef við hugleiðum aðeins það sem hér er sagt mætti auðvitað með nákvæmlega sömu rökum yfirfæra þessa setningu á íslenska fiskveiðistjórnarkerfið og hvernig því er útdeilt --- hvernig því hefur verið útdeilt á tiltölulega fáa. Og til þess væri fullt tilefni af því að sú fisktegund sem við erum að ræða um, túnfiskurinn, er auðvitað talsvert háður sjávarhita til að nálgast Ísland. Það er hins vegar önnur fisktegund sem við vorum að úthluta reynslu á, hæstv. ráðherra, sem er skötuselurinn. Hann veiddist hér á djúpmiðum til þó nokkurs tíma en við hlýnandi sjó kom hann upp að ströndinni og inn á Faxaflóa, inn á Breiðafjörð og jafnvel norður fyrir land. Og nú háttar svo til, herra forseti, að á svæðunum þar sem skötuselurinn veiðist er engin veiðireynsla. Og með nákvæmlega sömu rökum gætu menn sagt að það væri ósanngjarnt og óeðlilegt að þessari reynslu skyldi hafa verið úthlutað með þeim hætti sem gert er. Og auðvitað er það svo í öllu íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu, því miður, að úthlutunin sem eingöngu er byggð á veiðireynslu, sem er þó breytileg eftir árstíðum og hitafari sjávar og ýmsu öðru, er oft mjög ósanngjörn með nákvæmlega sömu rökum og við færum fyrir samþykkt þeirrar tillögu sem hér er til umræðu.

Þegar við tölum um rétt strandríkisins Íslands á sama sjónarmið fyllilega við varðandi aðgang íslensku þjóðarinnar að veiðiheimildum hér við land og breytilegt náttúrufar. Við getum t.d. spurt okkur: Hvers vegna ættu íbúar við Húnaflóa ekki að fá að veiða þorsk sem er búinn að éta frá þeim alla rækjuna og taka frá þeim lífsbjörgina? Af hverju fá þeir engan forgang að því að veiða þennan fisk sem núna gengur inn á Húnaflóa en gerði ekki í áratugi?

Það eru auðvitað fjöldamörg atriði í þeim röksemdum sem hér eru lagðar upp. Þær eru í raun og veru þær sömu og við byggjum fiskveiðistjórn okkar á en hér teljum við Íslendingar að þetta sé afar ósanngjörn framsetning og byggjum sókn okkar á því. Og ég tek undir það. Með sömu sjónarmiðum tek ég þá undir rétt íbúa strandbyggða Íslands til þess að fá að endurskoða þá úthlutun kvótakerfis sem byggt hefur verið á, úthlutun sem sett hefur marga byggðina dálítið á skjön miðað við það sem áður var, og byggðin mun hallast meira á merinni eftir því sem lengra líður.

Þetta vildi ég sagt hafa, herra forseti. Ég átti reyndar von á því að hæstv. landbrh. byrjaði ræðuna á því að segja að þar sem tveir túnfiskar kæmu saman, þar væri torfa.