Alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 14:10:20 (730)

2002-10-29 14:10:20# 128. lþ. 15.7 fundur 243. mál: #A alþjóðasamningur um verndun túnfiska í Atlantshafi# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[14:10]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nokkuð sem ég vil taka skýrt fram svo það valdi ekki misskilningi af því að mér hefur fundist það koma fram í máli þingmanna sem hægt væri að misskilja, þ.e. að það væri eins og Íslendingar hefðu allt í einu farið þarna út og biðu núna á milli vonar og ótta um hvort Alþingi samþykkti þetta mál. Sannleikurinn er sá að Íslendingar hafa, eins og hér hefur komið fram, allt frá 1995 haft áheyrnaraðild og verið fullgildir þátttakendur í umræðu um þessi mál. Þeir hafa sótt ráðstefnur og fundi Atlantshafstúnfiskveiðiráðsins frá þeim tíma. Þeir hafa haft þar fullt málfrelsi. Þeir hafa tekið fullan þátt í nefndarstarfi og það er svona til að fullkomna verkið, þó að málið komi seint fram, að við gerumst þar fullgildir aðilar núna.

Ef einhver hefur misskilið þetta þá vil ég því bara segja að þeir bíða þar ekkert milli vonar og ótta. Þeir hafa eins og öll hin árin tekið þátt að fullu í störfum ráðsins og bíða nú þess að verða fullgildir aðilar. Það kann rétt að vera, og ekki ætla ég að verja það, að málið kemur seint fram. En um það þýðir ekkert að sakast í dag eins og kom fram í máli hv. þm. heldur vinda sér í að afgreiða það því að við teljum þetta nokkra hagsmuni fyrir íslenska þjóð.