Búnaðarlög

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 14:42:30 (735)

2002-10-29 14:42:30# 128. lþ. 15.8 fundur 241. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[14:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er fjallað um frv. til laga um breytingu á búnaðarlögum sem varða breytingar á þeirri nefnd sem kölluð er erfðanefnd landbúnaðarins. Málið er afar athyglisvert og er að nokkru rakið í greinargerð með frv. hver aðdragandi þess hefur verið. Þar kemur fram að allt frá árinu 1974 hafi verið starfræktur alþjóðlegur upplýsingabanki um erfðaauðlindir í plönturíkinu og sömuleiðis hafi um margra ára skeið verið haldið utan um erfðaauðlindir á vegum FAO, alþjóðlegu matvælastofnunarinnar í skógræktinni. Húsdýrasviðið hefur líka haft fimm genabanka.

Nokkrar spurningar vakna, herra forseti, þegar hugmyndirnar að baki frv. eru skoðaðar og ég mundi vilja fá frá hæstv. landbrh. frekari skýringar þar á. Eins og mál standa í dag er erfðanefnd búfjár skipuð fulltrúum frá Bændasamtökum Íslands, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Náttúrufræðistofnun Íslands og Veiðimálastofnun. Í þessari nýju tillögu er lagt til að Náttúrufræðistofnun Íslands missi fulltrúa sinn úr nefndinni en þess í stað verði gert ráð fyrir að umhvrn. skipi fulltrúa í nefndina. Hæstv. ráðherra kom alls ekki að því í ræðu sinni hvernig sú breyting er hugsuð eða rökstudd og saknaði ég þess og óska því eftir frekari rökstuðningi ráðherrans á því sviði. Mér þykir þetta skjóta skökku við, herra forseti, í fyrsta lagi vegna þess að Náttúrufræðistofnun Íslands hefur haft á sinni hendi umsjón með samningnum um líffræðilegan fjölbreytileika sem samþykktur var á Ríó-ráðstefnunni 1992. Þetta er afar merkilegur samningur og satt að segja eru Íslendingar orðnir langeygir eftir því að fá að sjá framkvæmdaáætlun þess samnings en Íslendingar eru aðilar að samningnum og eiga þar af leiðandi að fara eftir honum. En það hefur dregist að leggja fram sundurliðaða framkvæmdaáætlun af hendi stjórnvalda og ég sé ekki betur en þetta mál komi að hluta til undir þennan téða samning. Þess vegna finnst mér undarlegt að fulltrúi frá stofnuninni sem hefur haft umsjón með samningnum skuli tekinn út úr nákvæmlega þessari nefnd. Ég óska þess vegna eftir skýringum hæstv. ráðherra.

[14:45]

Úr því að Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri á þarna nefndarmann má spyrja, herra forseti, hvers vegna Landbúnaðarháskólinn á Hólum eigi þá ekki líka fulltrúa. Það kemur fram í greinargerð með frv. að undir nefndina falli líka erfðaauðlindir í ferskvatnsfiskum þannig að maður hefði haldið að sá háskóli sem annast fiskeldismálin öðrum fremur í háskólaflóru okkar hefði þá átt þarna aðild. Og kannski er hægt að ímynda sér að háskólasamfélagið ætti að koma þarna sterkar inn en ekki eingöngu landbúnaðarháskóli þannig að ég sé ekki annað en að hér þurfi landbn. að fara yfir málin. Það kann að vera að leita þurfi frekari umsagna um þessi mál heldur en eðlilegur og daglegur sjóndeildarhringur landbn. gæfi til kynna. Það kann að vera að menntmn. og umhvn. ættu að skoða þetta mál hvor í sínu ranni til þess að athuga hvort þarna sé ekki einmitt um svo viðamikið mál að ræða að fleiri kæmu að því en stofnanir eða aðilar landbúnaðarins.

Að lokum vil ég segja, herra forseti, að ég hef í sjálfu sér mikinn áhuga á því að genabankar af því tagi sem hér um ræðir geti starfað og að þeir fjalli á öflugan hátt um sín mál og safni erfðaupplýsingum eftir því sem stjórnvöld setja fjármagn til. Þá vil ég samt vara við því að slíkir genabankar verði látnir taka við hlutverki náttúruverndarinnar. Mér finnst ákveðin hætta vera hér fólgin. Alveg eins og maður hefur á tilfinningunni að nú ætli stjórnvöld að láta það nægja að varðveita landslag hálendisins með því að taka ljósmyndir af því öllu saman hefur maður á tilfinningunni að hér gæti verið svipuð hætta á ferð, þ.e. menn geti hugsað sér að láta genabankana taka við hlutverki náttúruverndarinnar og að menn fari á endanum að telja það nægja að varðveita erfðaefnin í stað þess að varðveita náttúruna og lífríkið í sinni fjölbreyttu mynd.