Búnaðarlög

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 14:57:41 (740)

2002-10-29 14:57:41# 128. lþ. 15.8 fundur 241. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[14:57]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og vek athygli á því að málið er ekki nýtt. Það hefur verið flutt hér áður og farið til umfjöllunar í landbn. þannig að þeir sem þar starfa þekkja það auðvitað af fyrri kynnum. Ég get tekið undir margt sem fram kom í ræðum manna þó að sumt af því hafi auðvitað verið á skjön eins og sagt er.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson ræddi um erfðalindina og erfðaauðlindina. Það er auðvitað það sem nefndin fer yfir og ég ætla ekki að gerast dómari í því. Erfðalind er víðtækari en erfðaauðlind sagði hv. þm. ef ég skynjaði túlkun hans rétt, og auðvitað erum við að tala um auðlindir. Kannski er alltaf að koma betur og betur í ljós að sérstaða landsins og sérstaða þróunar bústofna hér í 1100 ár hefur gert það að verkum að við eigum kannski dýrmætari auðlindir í þessum bústofnum en við gerðum okkur grein fyrir fyrir nokkrum árum. Gleggsta dæmið um það er auðvitað yfirlýsing heilbrrh. Bandaríkjanna, sem hér var á ferð fyrir skömmu, um mjólkina og þá sérstöðu hennar að í henni eru efni sem eru vörn gegn sykursýki í börnum og ungmennum. Hann lýsti því yfir að hann væri tilbúinn til að verja fjármagni og vinnu --- ég er ekki í andsvari, hv. þm., ég er í ræðu.

(Forseti (ÁSJ): Það verður leiðrétt.)

Það var auðvitað mikil yfirlýsing að hann skyldi vera tilbúinn að senda hingað mannafla og verja fjármunum til þess ef þetta væri eins og honum sýndist og frá hefði verið sagt og hér oft um rætt. Þá væri dýrmæt auðlind í íslenskri mjólk þannig að það var auðvitað glæsileg yfirlýsing sem segir það að heimurinn breytist og menn átta sig á að margt er dýrmætara í höndum þeirra en þeir kannski vissu um. Því ber að meðhöndla það vel og að Alþingi komi að og setji um það lög.

[15:00]

Hv. þm. minntist á forustuféð. Ég hygg að það sé ekki að deyja út heldur að það sé staðfastur vilji bænda að rækta það fé og þeir geri það af miklum myndarskap og því beri að fylgjast með. Ég stóð að því fyrir tveim, þrem árum að stofnað var hér sérstakt félag um forustukindina sem er einstæð í veröldinni af sérstökum gáfum sem hún hefur til að bera. Það er þekkt hér í gegnum aldirnar hvernig hún hefur bæði bjargað hjörðinni og smalanum til húsa. Þetta eru einstakir eiginleikar sem hvergi þekkjast annars staðar nema þá hjá íslensku sauðkindinni. Ég var í Bandaríkjunum í fyrra. Það búa margir með íslenskt sauðfé í Bandaríkjunum. Þeir sögðu mér að þeir botnuðu ekkert í því að forustukindin kom með allt féð úr skóginum til húsanna þegar heyrðist í úlfinum. Þessar gáfur eru þekktar og þykja sérstæðar víða og okkur ber að varðveita þá furðuskepnu sem forustukindin er.

Hver er kostnaður við þessa nefnd? Kostnaður eykst ekki við þetta. En það sem varið er til þessa er ekki hár peningur. Það er gert í þjónustusamningi við Bændasamtökin og ef ég veit það rétt --- það kemur fram í málinu --- þá er það svona 2,5 millj. á ári sem er auðvitað afar lítill peningur til þess að halda utan um þessi mál.

Fleiri hv. þm. ræddu síðan málið. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi Hólaskóla. Það er aðeins til einn landbúnaðarháskóli samkvæmt lögum á Íslandi. Það er Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Þó að Hólar og Reykir í Ölfusi gegni mikilvægu hlutverki þá eru þeir ekki lögum samkvæmt háskólar. Það er aðeins til einn landbúnaðarháskóli og þess vegna er landbúaðarháskólinn tilgreindur þarna og er auðvitað æðsti skóli landbúnaðarins á Íslandi. Hins vegar sitja núna að störfum nefndir sem ég er að láta fara yfir málefni allra skólanna með það að leiðarljósi að styrkja þá.

Ég þekki þá sögu ekki hvers vegna þarna féll út fulltrúi frá Nátturufræðistofnun og inn kom frá umhvrn. Ég hygg að það hafi verið í tillögum nefndarinnar og við það hefur ekki verið gerð athugasemd fyrr við mig. Ég bið nefndina um að skoða þetta mál enn betur og fara yfir það. Hv. þm. fagnaði þessu máli á margan hátt og taldi mikilvægt að menn færu síðan upp á hálendið. Ég held að það væri ástæða til að hv. þm. færi út fyrir borgina og sæi að fjöllin standa enn og hálendið er til. Það er ekkert verið að fella það eða sökkva því. Íslensku fjöllin standa enn og kalla á okkur dag hvern með fegurð sína og yndisleik. Og af því að það kom fram í máli fleiri hv. þm. eins og þeir væru menn sannleikans og að aðrir væru að vitrast og opna sig. Guð hjálpi ykkur! Haldið þið að við höfum ekki gert okkur grein fyrir hrikaleik og fegurð íslenskrar náttúru fyrr. Ég hef alla vega gert það frá því að ég opnaði þessi augu sem hér horfa út í salinn. Ég kann að meta íslenska náttúru og vil ekki fórna henni. Hins vegar hefur það verið hlutskipti okkar sem förum með stjórn þessa lands að verða að stýra málum þannig að við nýtum auðlindir Íslands til þess að geta haldið unga fólkinu hjá okkur, skapað atvinnu og fjölbreyttari atvinnu en verið hefur hér í aldir til þess að tryggja afkomu þjóðarinnar og tryggja að við getum boðið börnum Íslands sambærileg lífskjör og aðrar þjóðir hafa. Þetta er okkar hlutskipti og það þýðir ekki fyrir okkur að vera haldnir neinum fordómum.

Mér hafa fundist hv. þm., alla vega Vinstri grænna, vera haldnir fordómum gagnvart öllum framkvæmdum og vilja stöðva þær. Þeir hafa barist hér í þinginu gegn öllum mikilvægum framfaramálum á þessu kjörtímabili þannig að þeir þurfa ekki síður að fá smáupplýsingar heldur en við sem stjórnina styðjum og sitjum í henni. Þó þetta séu fallegar ábendingar og kannski nauðsynlegt öðru hverju að minna menn á þetta þá finnst mér að þeir megi átta sig á því að þeir geta líka fengið á sig gagnrýni og þurft að skoða hug sinn og eigin málflutning. Án þess að ég ætli að deila við þá í kringum þetta mál um það þá held ég að þetta mál sem hér kemur fram í annað sinn sé bara mikilvægt mál varðandi nytjastofna, bæði búfé, tré og jurtir. Því er mikilvægt fyrir Alþingi að stækka þessa nefnd. Ég bið hv. landbn., þá nefndarmanna sem hér eru, að fara vel yfir málið á nýjan leik. Þeir eiga sjálfsagt umræður og umsagnir úr nefndarstarfinu frá því í fyrra. Ég vona að málið verði afgreitt á þessu þingi sem nú situr.