Búnaðarlög

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 15:06:19 (741)

2002-10-29 15:06:19# 128. lþ. 15.8 fundur 241. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[15:06]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að fjöllin standa enn. En það eru dalirnir og gljúfrin sem eiga undir högg að sækja vegna ágangs ríkisstjórnarinnar. Það er rangt sem hæstv. ráðherra sagði að ég eða aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hafi fordóma gagnvart framkvæmdum. Ég vísa þeirri fullyrðingu hæstv. ráðherra til föðurhúsanna.

Ég ætla hins vegar ekki að eyða lengra máli í að ræða þessi hugðarefni okkar hæstv. ráðherra í þessu andsvari en hefði haft hug á að fá að heyra meira um nefnd þá sem hæstv. ráðherra nefndi í sinni ræðu, sem hann segir að sé nú að störfum og eigi að kanna stöðu landbúnaðarskólanna. Þó það beinlínis tilheyri ekki þessu máli þá vekur það forvitni mína.

Sömuleiðis hafði ég aðra spurningu til hæstv. ráðherra sem ég gleymdi í ræðu minni. Hún lýtur að skipulagningu þessa varðveislustarfs sem m.a. erfðanefnd landbúnaðarins er falið að vinna. Mig fýsir að vita, herra forseti, hvort áætlun um þetta varðveislustarf hafi verið gerð hér á Íslandi og þá hvernig sú áætlun er ef hún er búin. En það kemur fram í greinargerð málsins að það hafi verið samþykkt á sameiginlegum vettvangi Norðurlandanna að hvert land fyrir sig þurfi að gera áætlun til þess að skipuleggja þetta varðveislustarf. Því er eðlilegt að hér komi um það upplýsingar hvort slík áætlun liggur nú þegar fyrir hér á Íslandi.