Búnaðarlög

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 15:20:46 (746)

2002-10-29 15:20:46# 128. lþ. 15.8 fundur 241. mál: #A búnaðarlög# (erfðanefnd) frv., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 128. lþ.

[15:20]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil ítreka það að ég tel um stórt mál að ræða. Gríðarmikil verðmæti geta verið fólgin í erfðaeiginleikum íslensks lífríkis. Ég nefndi áðan íslensku mjólkina sem vakið hefur heimsathygli, eins og hæstv. ráðherra benti á í ræðu sinni. Ég veit að hæstv. ráðherra skynjar hve mikil verðmæti eru þar á ferðinni.

Hér skiptir máli sérstaða landsins sem eylands djúpt í höfum. Maður sér fyrir sér hvernig þessi bústofn kom til landsins og að víkingarnir hafi valið sínar bestu skepnur og borið á sína borðfögru skeið áður en þeir létu í haf frá Noregsströndum og tóku land við Hraunhafnartanga, í Vopnafirði eða í Gautavík í Berufirði, eins og segir frá í þeirri merku bók Njálu. Auðvitað hafa þetta verið bestu skepnurnar sem þeir ráku á land úr skipum sínum. Þessi stofn hefur varðveist hér með þessum eiginleikum og því er mikilvægt að varðveita hann. Ég tek því undir orð hæstv. ráðherra í þessu efni, sérstaklega varðandi mjólkina.