Velferðarsamfélagið

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 16:37:22 (752)

2002-10-29 16:37:22# 128. lþ. 16.6 fundur 22. mál: #A velferðarsamfélagið# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 128. lþ.

[16:37]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um umbætur í velferðarmálum og þróun velferðarsamfélagsins. Það er vissulega þörf á að taka á þeim málum og gera þar markvissar umbætur, eins og lagt er til í þessari þáltill.

Hægt er að víkja að mörgu í þessu máli og varla hægt að koma öllu því að á þeim tíma sem manni gefst til að ræða þessi mál. Vissulega þarf að taka á þeim þáttum sem hv. þm. nefndi í framsöguræðu sinni.

Auðvitað þarf að tryggja að greiðslur frá velferðarkerfinu, hvort sem það eru almannatryggingar eða aðrar greiðslur, atvinnuleysis- eða lífeyrisgreiðslur, dugi til framfærslu. Það er alveg ljóst að þær gera það ekki í dag hjá þeim sem eru með lægstu greiðslurnar. Það er kannski hægt að skrimta af þessum greiðslum en það er ekki hægt að lifa af þeim. Það er alveg ljóst.

Ég verð að segja að erindi sem flutt voru á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins nú á dögunum, bæði af félagsmálastjóranum í Reykjavík, Láru Björnsdóttur, og einnig Þórhalli Heimissyni presti, sýndu og sönnuðu að þarna er pottur brotinn í velferðarkerfinu. Þau nefndu ýmis dæmi um hvar möskvar öryggisnets velferðarkerfisins væru að gliðna og að fólk félli niður um þessa möskva, sem eiga auðvitað að vera það þéttir að fólk falli ekki þar niður.

Ég verð að nefna það, vegna þess að við erum að ræða þessi mál, að það er nánast á hverjum degi sem einhver hefur samband við mann vegna þess hversu illa hann er staddur fjárhagslega, þ.e. öryrkjar og aldraðir. Ég er rétt í þessu að koma frá kosningamiðstöð minni úti í Pósthússtræti 13. Til mín kom kona sem er öryrki og hafði ekki efni á að leysa út lyf fyrir barnið sitt sem lá mjög veikt heima. Hún gat ekki leyft sér að kaupa lyfin. Ég sé að í þessari tillögu er lagt til að lyfjakostnaður verði endurskoðaður. Það er ekki bara að það þurfi að endurskoða greiðslurnar til fólks sem getur ekki séð sér farborða með því að vinna fyrir sér heldur þarf auðvitað að skoða lyfjakostnaðinn.

Ég veit til þess að aldraðir hafi ekki getað leyst út lyf. Það verður til þess að fólk tekur ekki lyfin og verður veikara og getur endað sem mjög þungur baggi á heilbrigðiskerfinu, fyrir utan það hversu ömurlegt það er fyrir hinn sjúka og aldraða.

Hér er komið inn á tannlæknaþjónustuna. Það var einmitt minnst á það í erindi á aðalfundi Tryggingastofnunarinnar og verið að bera saman hvernig þessir þættir eru hér á landi miðað við Norðurlöndin. Séra Þórhallur Heimisson benti á hve fólk væri illa statt og að beiðnum um mataraðstoð hefði fjölgað um 240 hjá Hjálparstofnun kirkjunnar á síðasta ári. Nú fjölgar þeim um 15% á mánuði. Hér á landi greiða menn t.d. tannréttingakostnað úr eigin vasa. Hann getur numið allt að 300 þús. kr., nefndi hann sem dæmi. Við vitum auðvitað að fólk borgar mjög háar upphæðir fyrir tannréttingar barna sinna. Ef við berum okkur saman við Norðurlönd þá er allur tannlæknakostnaður barna til 20 ára aldurs greiddur að fullu af hinu opinbera, bæði í Svíþjóð og Danmörku, og niðurgreiddur til 29 ára aldurs. Auðvitað þurfum við að líta til þess að það hafa ekki allir efni á að senda börnin sín til tannlæknis, sérstaklega þeir sem eru mjög illa staddir fjárhagslega. Þeir senda þau ekki til tannlæknis.

Hér er minnst á samspil almannatrygginga, lífeyrisréttinda og skattkerfis. Vissulega hefur það verið svo hjá þessari ríkisstjórn, herra forseti, að menn hafa verið að setja öll þessi mál í nefndir sem engu hafa skilað. Nú eru t.d. málefni aldraðra í nefnd. Fjárlagafrv. kemur hér inn í þingið nánast algjörlega autt að þessu leyti, þar eru engar lausnir fyrir þessa hópa. Vonandi skilar þó nefndarstarf ríkisstjórnarinnar og aldraðra einhverju inni í fjárlagafrv. áður en það verður klárað. Vissulega þarf að taka á þessum þætti.

Þróun bótagreiðslna frá almannatryggingunum miðað við launaþróun er þannig, gliðnunin hefur verið svo mikil, að það munar heilum mánaðargreiðslum á hverju ári, fyrir utan það að til viðbótar koma heil mánaðarlaun sem tekin eru til baka til ríkisins í sköttum. Í raun er verið að hafa af lífeyrisþegum, sem eru verst settir, bara á greiðslum frá almannatryggingunum, tvenn mánaðarlaun á ári, annars vegar sé litið á gliðnunina og hins vegar skatta. Þetta er mjög alvarlegt ástand og orðið verulega aðkallandi að gera endurbætur á þessum þætti velferðarkerfisins.

Hér er talað um réttindi foreldra og aðstandenda langveikra barna. Vissulega er þar þörf á úrbótum, svo sannarlega. Einnig er talað hér um afnám sjúklingaskatta. Menn eru farnir að greiða fyrir nánast allt. Í fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir er hækkun á komugjöldum í heilbrigðisþjónustunni. Það má búast við mikilli hækkun lyfjakostnaðar eins og einnig kom fram á aðalfundi Tryggingastofnunar ríkisins einnig. Auðvitað bitnar þetta aðallega á þeim sem eru veikir. Við eigum ekki að hafa það þannig að fólk sé skattlagt þegar það er veikt. Menn greiða til samfélagsins meðan þeir hafa atvinnu og eru heilbrigðir en eiga síðan að njóta afraksturs þeirra greiðslna þegar þeir þurfa á velferðarkerfinu að halda.

Einu er ég ekki alveg sammála í þessari tillögu þar sem lagt er til að afnema komugjöld á heilsugæslustöðvar. Ég tel að taka eigi lágt gjald á heilsugæslustöðvum, þjónustan eigi ekki að vera alveg ókeypis. Ég hef samanburð frá því að ég starfaði í Tryggingastofnun. Þá var ókeypis á heilsugæslustöðvar. Síðan var sett á mjög lágt gjald. Ég held að það sé nauðsynlegt til þess að fólk fari ekki inn á heilsugæslustöðvarnar við hvert einasta tilvik ef eitthvað bjátar á. Oft er það svo að hægt að lækna smákvef og annað með ódýrari hætti. Velferðarkerfið er auðvitað dýrt. Menn eiga að hafa greiðan aðgang að frumþjónustunni en það á að greiða smágjald. Ég tel það eðlilegt, en það á að vera lágt. Ég er því ekki alveg sammála þessum hluta málsins. Ég veit að menn hafa deilt nokkuð um hvort greiða eigi komugjöld en ég er hlynnt því að menn greiði lágt gjald.

Hér er rætt um sveigjanleg starfslok. Ég fagna því að komnar skuli fram tillögur um sveigjanleg starfslok. Ég hef einmitt lagt fram hér á þingi, í tvígang að ég held, þingmál um sveigjanleg starfslok. Ég tel það mjög brýnt að mönnum verði gefinn kostur á að ráða því nokkuð sjálfir hvenær þeir hætta störfum og fara á lífeyrisgreiðslur.

Herra forseti. Hægt væri að ræða um þetta mál lengi dags en tími minn er á þrotum að sinni. Ég vonast til að farið verði í þá vinnu sem lagt er til að hefja í þessu þingmáli. Það er mjög aðkallandi.