Velferðarsamfélagið

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 16:47:09 (753)

2002-10-29 16:47:09# 128. lþ. 16.6 fundur 22. mál: #A velferðarsamfélagið# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 128. lþ.

[16:47]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Við erum hér að ræða till. til þál. um umbætur í velferðarmálum og þróun velferðarsamfélagsins sem hv. þm. Ögmundur Jónasson er 1. flm. að og gerði hér grein fyrir í ræðu sinni.

Tillagan er í raun og veru mjög viðamikil. Hún tekur á mörgum flokkum ýmissa réttindamála, almannatrygginga og félagsmála, heilbrigðismála, menningarmála, uppeldis- og menntamála, mannvæns samfélags umhyggju og samhjálpar og fjármögnunar velferðarkerfisins.

Það er auðvitað hægt að ræða um einstök atriði í þessari tillögu en ég ætla ekki að fara mjög djúpt í þau. Ég vil bara lýsa því yfir að ég tel að efni tillögunnar eins og það er uppsett um ,,að fela ríkisstjórninni að gera rammaáætlun um markvissar umbætur í velferðarmálum og framtíðarþróun velferðarsamfélags á Íslandi`` sé mjög þarft, og gott að leggja upp með þá stefnumótun sem gert er í þáltill. Þróunin almennt í þjóðfélagi okkar á undanförnum árum hefur verið sú að frekar hefur verið gengið á réttindi þjóðfélagsþegnanna varðandi velferðarkerfið, og ýmsar réttarbætur sem frekar hefur verið dregið úr ásamt því að auka kostnaðarþátttöku fólks í ýmsum þáttum þjónustunnar í þjóðfélaginu. Þess vegna tel ég að sú tillaga sem hér er lögð fram um að vinna að því að fela ríkisstjórninni að gera slíka rammaáætlun um markvissar umbætur í velferðarmálum sé virkilega þörf. Ég lýsi því yfir fyrir hönd Frjálslynda flokksins að við munum styðja tillöguna heils hugar og vonum svo sannarlega að ríkisstjórnarflokkarnir geti fallist á það að hún fái brautargengi og komi aftur inn til afgreiðslu í hv. Alþingi.

Í þeim liðum sem hér eru nefndir eru talin upp ýmis ágreiningsmál stjórnar og stjórnarandstöðu. Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra sem störfum hér á Alþingi að lagfæra það sem miður hefur farið. Okkur kann að greina á um leiðir en ég tel að sú tillaga sem hér er flutt og svona upp sett geti verið grunnur að víðtækri sátt um velferðarþjónustuna. Þess vegna geri ég mér vonir um að hún fái eðlilega málsmeðferð í hv. Alþingi og í nefnd og síðan getum við þá sameinast um að afgreiða hana frá þinginu. Ég lýsi því yfir enn á ný að ég tel mjög mikla nauðsyn á að taka á fjölmörgu í þeim atriðum sem hér eru talin upp. Við höfum stutt ýmis sambærileg mál sem hafa verið lögð fyrir þingið, og fyrri ræðumenn hafa gert að umræðuefni.

Eins og ég sagði ætla ég ekki að tala um einstök atriði í þessari tillögu þótt auðvitað væri hægt að tala langt mál um ýmis atriði sem hér eru upp talin.

Herra forseti. Ég mæli með því að þessi tillaga verði samþykkt.