Velferðarsamfélagið

Þriðjudaginn 29. október 2002, kl. 16:52:29 (755)

2002-10-29 16:52:29# 128. lþ. 16.6 fundur 22. mál: #A velferðarsamfélagið# þál., Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 128. lþ.

[16:52]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Þrír þingmenn hafa tjáð sig um þetta mál, hv. þm. Samfylkingarinnar, Örlygur Hnefill Jónsson og Ásta R. Jóhannesdóttir, og hv. þm. Frjálslynda flokksins, Guðjón A. Kristjánsson. Ég þakka þessum þingmönnum öllum fyrir stuðninginn við þetta mál.

Í fyrri ræðu minni rakti ég efni tillögunnar og sagðist mundu botna ræðu mína í seinni umferð. Ég ætla ekki að telja upp alla þá mörgu þætti sem vísað er til í tillögunni en aðeins vekja máls á nokkrum þeirra, fyrst þeirri gagnrýni sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir setti fram varðandi sjúklingaskattana. Í rauninni er ekki rétt að nefna það gagnrýni. Hún var með ákveðnar efasemdir um að það bæri að öllu leyti að afnema komugjöld á heilsugæslustöðvar, lagði áherslu á að þau yrðu að vera mjög lág og fæla fólk ekki frá sem raunverulega þyrfti á aðstoð að halda. Ég er þessu ósammála. Ég tel að ekki eigi að vera nein komugjöld á heilsugæslustöðvar. Enginn leikur sér að því að leita þangað. Fólk situr ekki heima við í aðgerðaleysi og veltir því fyrir sér hvað það eigi að gera þann daginn, hvort það eigi að láta líta á eyrun í börnunum eða sjálfu sér. Fólk fer þegar það sér sig knúið til að leita læknis og það á ekki að setja neina þröskulda í veg fyrir fólk í því efni.

Það er staðreynd og hefur verið bent á að kostnaðarþátttaka sjúklinga hafi orðið til þess að fæla fólk frá því að leita læknis. Þegar líða tók á 10. áratuginn var ljóst að aukin misskipting var farin að valda alvarlegri félagslegri mismunun. Í skýrslu sem landlæknisembættið gaf út í apríl árið 1997 undir heitinu ,,Heilbrigðisþjónustan --- árangur og skipulag í nútíð og framtíð`` segir m.a., með leyfi forseta:

,,Gjalda ber varhug við frekari hækkun gjalda eða verulegum þjónustugjöldum því að í óbirtri rannsókn landlæknisembættisins kemur í ljós að meðal barnafólks sem hefur lægstar ráðstöfunartekjur á mánuði er allstór hópur sem hefur frestað eða hætt við að leita læknismeðferðar og taka út lyf vegna fjárskorts.`` --- Í skýrslunni kemur fram að það er einkum á sviði tannlækninga sem fólk veigrar sér við að leita lækninga. Og enn vitna ég í skýrsluna, með leyfi forseta:

,,Hér hefur orðið grundvallarbreyting á því að fyrri rannsóknir benda ekki til misræmis í aðgengi fólks eftir stéttum og efnum.`` --- Gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu hefur valdið því að fólk er fælt frá því að leita til heilbrigðisþjónustunnar.

Það var alls ekki þetta sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir var að tala um. Hún var að tala um mjög lág gjöld enda er hún einn af einörðustu baráttumönnum á Alþingi fyrir því að hafa aðgengi að velferðarþjónustunni og heilbrigðisþjónustunni opið öllum og enga mismunun þar innan. Ég er hins vegar ósammála því að það eigi að vera yfirleitt nokkur komugjöld á heilsugæslustöðvar.

Við viljum láta endurskoða lyfjakostnað. Þetta er orðinn sá baggi sem reynist mörgum sjúklingum hvað þungbærastur. Við viljum réttarbætur fyrir langveik börn, við viljum auka rými á sjúkrastofnunum og afnema sumarlokanir þannig að fullnægjandi þjónusta sé í boði árið um kring. Ég minnist þess að hafa í sumar lesið bréf sem birtist í fjölmiðlum frá ungum manni sem átti við geðveiki að stríða og honum var úthýst af stofnun vegna sumarlokana. Þetta er náttúrlega nokkuð sem ekki gengur. Ég geri mér grein fyrir því að það er oft erfitt að manna sjúkrastofnanir en þær verða einfaldlega að taka sér tak og skipuleggja starfsemi sína þannig að þetta gerist ekki.

Við viljum láta endurskoða reglur um þátttöku hins opinbera í greiðslu ferðakostnaðar sjúklinga sem lið í að tryggja jafnrétti í heilbrigðismálum. Við viljum umbætur í geðheilbrigðismálum, m.a. með stuðningi við fjölskyldur geðsjúkra, og aukið forvarnastarf á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar.

Áður en ég hverf frá þessum þætti, heilbrigðismálunum, vil ég víkja aðeins nánar að kostnaðarþátttöku sjúklinga. Fyrir u.þ.b. ári var því haldið fram að kostnaðarþátttaka sjúklinga hefði minnkað á síðustu 10 árum eða þar um bil og vísuðu menn þar í skýrslur sem komu frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni. Þá höfðu ýmsir efasemdir um að þetta gæti verið rétt, staðreyndirnar virtust tala allt öðru máli. BSRB lét gera könnun í lok árs 2001 þar sem sjö sjúklingum sem áttu við mismunandi veikindi að stríða var fylgt eftir, og lagðir fram útreikningar á þróun kostnaðar þeirra á tímabilinu 1990--2001. Öllum þessum sjúklingum var fylgt í gegnum ráðlagða læknismeðferð í eitt ár og haldið til haga kostnaði þeirra yfir árið. Sama eða sambærileg meðferð var skoðuð á fimm ára fresti, árin 1990, 1996 og 2001. Niðurstaðan var mjög afgerandi. Í öllum tilvikum hafði kostnaður sjúklingsins stóraukist og í sumum hafði hann margfaldast. Samanburður af þessu tagi er alltaf erfiður og í sumum tilvikum kynni að vera um einhverja kostnaðaraukningu að ræða vegna aukinnar meðferðar. Það átti t.d. við í einu dæminu, lungnaþembu. Þá var á það að líta að í sumum tilfellum er kostnaðarhlutdeild sjúklinga meiri en í þeim dæmum sem notuð voru í könnuninni, í öðrum tilfellum minni. Og ég minnist þess að þegar þessi könnun var gerð opinber höfðu ýmsir samband við BSRB og sögðu að kostnaðaraukningin væri miklu meiri en þarna kæmi fram og tiltóku þá einhverja aðra sjúkdóma.

Svo dæmi sé tekið úr þessari könnun þurfti sá gigtarsjúklingur sem fylgt var eftir að borga árið 1990 29.905 kr. en þegar komið var fram á árið 2001 var þessi kostnaður orðinn 48.563, þ.e. alls 62,39% aukning. Í sumum tilvikum var þessi kostnaðarsprenging miklu meiri. Ofnæmissjúklingur sem borgaði tæpar 19.500 árið 1990 greiddi rúmar 57.000 árið 2001. Þarna var kostnaðaraukningin tæplega 193%. Hjá barni með eyrnabólgu var kostnaðaraukningin 38,91%. Kransæðasjúkdómar 154,25%. Kostnaðarhlutdeild einstaklings með fjölbreytt vandamál hafði aukist um rúm 227% á þessu árabili. Þetta færir okkur heim sanninn um hve varhugavert það getur verið að skoða gagnrýnislaust prósentur og tölur sem fram eru reiddar.

[17:00]

Það var alveg rétt sem menn sáu að samkvæmt því töfluverki sem OECD reiddi fram virtist kostnaðarhlutdeild sjúklinga hafa minnkað á síðustu árum. En útreikningurinn miðaðist við verga landsframleiðslu, miðaðist með öðrum orðum við umfang efnahagsstarfseminnar á hverjum tíma sem er breytileg og allar mælingar og viðmið við hana ekki mjög nákvæm. Þegar málið er skoðað svona og kostnaðurinn talinn í krónum og aurum fyrir einstaklinginn, fyrir þann einstakling sem í hlut á, þá er þetta staðreyndin. Þetta vita allir sem eru í snertingu við fólk sem á við sjúkdóma að stríða. Þetta er mjög alvarlegt. Við leggjum til að sest verði yfir þetta og kannað hvernig hægt verði að gera úrbætur. Við eigum að taka alvarlega varnaðarorð landlæknisembættisins frá 1997, sem ég vísaði í áðan, að kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðisþjónustunni væri farin að valda því að fólk veigraði sér við að leita lækninga.

Við víkjum að menningarmálum, uppeldis- og menntamálum í tillögunni.

Opinber stuðningur við menningarmál, uppeldis- og menntamál verði endurskoðaður og tryggt að menntun og menningarstarfsemi verði aldrei séreign fáeinna einstaklinga eða hópa. Þannig er m.a. mikilvægt að fjárhagslegar aðstæður sveitarfélaga til rekstrar leikskóla og grunnskóla verði endurskoðaðar og bættar. Við þekkjum hvað gerðist við yfirfærslu skólans á sínum tíma. Hann hefur reynst mörgum sveitarfélögum og ekki síst fámennum sveitarfélögum mjög þungur baggi og mun erfiðari að bera en margir ætluðu á sínum tíma.

Tryggt verði að opinbert fé til skólastarfs á öllum skólastigum skerðist ekki vegna stuðnings við einkaskóla og ákvæði sett í lög sem tryggja að einkaskólum verði ekki hyglað umfram opinbert skólastarf. Menn hefur rekið í rogastans þegar farið er að skoða framlag til skóla í landinu. Þá kemur á daginn að einkaskólarnir búa við mun betri hag en þeir sem eru reknir á vegum ríkis og sveitarfélaga, vegna þess að þeir fá sama framlag að því er virðist frá hinu opinbera, en einnig skólagjöld og stuðning úr atvinnulífinu eins og Verslunarskólinn svo dæmi sé tekið. Þegar fjárráð hans eru borin saman við fjárráð Háskóla Íslands, þá eru þau kjör sem Háskóla Íslands eru búin miklu lakari.

Fjölgað verði tækifærum til framhaldsnáms og námsfólki á landsbyggðinni boðið samfellt nám í heimabyggð sinni til 18 ára aldurs. Grundvallaratriði er að þetta verði tryggt. Maður finnur það hvar sem farið er og þarf náttúrlega ekkert annað en spyrja sjálfan sig hvað maður vildi sjálfur. Auðvitað er mikilvægt að fólk geti haldið fjölskyldu sinni og börnum sínum hjá sér sem allra lengst, sérstaklega á því viðkvæma árabili þegar fólk er knúið til þess að senda börnin frá sér í skóla, auk þess sem þetta er geysilegur fjárhagsbaggi og verður þess náttúrlega valdandi að margir leita ekki í nám, fara ekki í nám, þannig að það er verið að mismuna fólki.

Fjölgað verði námsleiðum á framhaldsskólastigi og komið á fót stuttum starfsmenntabrautum.

Átak verði gert til að jafna aðstöðu til náms og hagnýta möguleika fjarkennslu til að bæta aðstöðu landsbyggðarfólks.

Tryggt verði að þeir sem eiga í félagslegum erfiðleikum eða námserfiðleikum njóti ráðgjafar og stuðnings til að geta nýtt sér þær námsleiðir sem í boði eru.

Síðan eru raktir fjölmargir aðrir þættir sem ég ætla ekki að telja upp. Við víkjum einnig að ýmsu sem lýtur að innflytjendum til landsins, aðgengismálum hreyfihamlaðra o.s.frv. Að lokum fjöllum við um fjármögnun velferðarþjónustunnar. Sá sem vill að samfélagið taki myndarlega á í velferðarmálum verður að sjálfsögðu að tryggja tekjustofna.

Við viljum að tekjustofnar sveitarfélaga verði styrktir. Við viljum stighækkandi skatta í tekjuskattskerfinu. Við viljum að skattleysismörk fylgi launaþróun. Við viljum að skattur á fjármagnstekjur og arðgreiðslur verði endurskoðaður.

Fram hefur komið í umræðunni á síðustu dögum að varnaðarorð sem komu frá stjórnarandstöðunni og verkalýðshreyfingunni, frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB, ekki síst í tengslum við afgreiðslu fjárlaga síðasta haust, um að skattkerfisbreytingarnar sem þá voru framkvæmdar mundu leiða til aukinnar mismununar í þjóðfélaginu, hafa öll gengið eftir, enda segir það sig sjálft þegar sköttum er létt af fyrirtækjum en skattar auknir á þá sem hafa minnstu tekjurnar.

Eins og hv. þm. Örlygur Hnefill Jónsson benti á áðan er atvinnulaust fólk núna í fyrsta skipti knúið til að greiða skatt af tekjum sínum, að hluta til að sjálfsögðu, þeim tekjum sem eru umfram skattleysismörkin.

Herra forseti. Ég ætlaði að víkja nánar að útgjöldum til velferðarmála, muninum á útgjöldum hér á landi og þess sem gerist á Norðurlöndunum, en til þess vinnst ekki tími. Ég legg til að þessari till. til þál. verði vísað til félmn. að lokinni umræðu.