Heilsugæslulæknar á Suðurnesjum

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:02:58 (764)

2002-10-30 14:02:58# 128. lþ. 17.91 fundur 195#B heilsugæslulæknar á Suðurnesjum# (aths. um störf þingsins), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 128. lþ.

[14:02]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins endurtaka það sem ég hef áður sagt í þessari umræðu um störf þingsins, að ég er að vinna að málefnum heilsugæslulækna á Suðurnesjum, m.a. í dag. Ég þarf ekki að rekja af hverju þessi deila er upp komin. Ég vil geta þess varðandi málið og eðlilegar áhyggjur af framvindu mála læknisþjónustu á Suðurnesjum að við í ráðuneytinu höfum að sjálfsögðu hugleitt og farið yfir hvaða möguleikar koma til greina í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum ef svo illa færi að þessar uppsagnir yrðu varanlegar og við fengjum ekki lækna í stað þeirra sem sagt hafa upp. Ég ætla ekki að ræða það efnislega nú. Ég vil sjá hverju fram vindur í dag varðandi þetta mál og hef þá vonandi einhverjar fréttir af því á morgun þegar við tökum umræðu um málið almennt. Ég endurtek að ég var beðinn um umræðu á morgun almennt um stöðu þessara mála.

Ég vil aðeins geta þess í sambandi við stöðu málsins nú að auðvitað hefur innan ráðuneytisins verið rætt hvaða möguleikar séu fyrir hendi ef svo illa færi að læknar hættu endanlega störfum. En ég vona að læknarnir sjái sig um hönd, vilji ræða við okkur og vilji koma til starfa aftur m.a. á þeim kjörum sem nýbúið er að dæma heilsugæslulæknum.