Hjúkrunarrými í Reykjavík

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:16:41 (769)

2002-10-30 14:16:41# 128. lþ. 18.1 fundur 109. mál: #A hjúkrunarrými í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:16]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég ætla ekki að efast um góðan vilja hæstv. ráðherra til að leysa þann brýna vanda sem við okkur blasir varðandi hjúkrunarrými, sérstaklega hér í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Það kom vissulega fram í máli hæstv. ráðherra. En það vantar fjármagn til að hrinda góðum áformum ráðherrans í framkvæmd. Það er það sem skiptir máli. Út á það gengur fyrirspurn mín.

Ég spurði sérstaklega um hvernig ráðherrann ætlaði að standa að fjölgun nýrra hjúkrunarrýma í Reykjavík og vitnaði þar í viljayfirlýsingu sem hæstv. ráðherra gerði með borgarstjóranum á sl. ári. Ég get ekki séð þess stað, t.d. í fjárlögum næsta árs, að það eigi að standa við þá viljayfirlýsingu. Þær hækkanir sem þar eru til hjúkrunarrýma eru mest vegna launabreytinga. Ég vil því ítreka fyrirspurn mína til ráðherrans: Telur hann að við munum á næsta ári taka skref til að standa við þessa viljayfirlýsingu? Ég get ekki séð það, herra forseti. Það er ekki forsvaranlegt, eins og nú blasir við fjölda aldraðra, að margra ára bið sé eftir hjúkrunarrými. Það er ekki forsvaranlegt, álagið á fjölskyldur viðkomandi vegna þessa.

Síðan er mikið skipulagsleysi í þessum málum eins og ég nefndi, t.d. að 106 aldraðir langlegusjúklingar eru á sjúkrahúsum í miklu dýrari plássum, sem eru 270 millj. dýrari á ári en ella væri væru til fyrir þá hjúkrunarrými. Það er brýnt, herra forseti, að ráðast þegar í endurskipulagningu á þessum málum. Vissulega þarf að auka hér heimaþjónustu og heimahjúkrun. Hún þarf að vera allan sólarhringinn og vissulega þarf líka hvíldarinnlagnir.

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra ollu mér miklum vonbrigðum vegna þess að það er ófremdarástand í þessum málum, ekki síst í Reykjavík.