Lyfjaávísanir lækna

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:23:55 (772)

2002-10-30 14:23:55# 128. lþ. 18.2 fundur 122. mál: #A lyfjaávísanir lækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:23]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur beint til mín tveimur fyrirspurnum um lyfjaávísanir lækna.

Sú fyrri er svohljóðandi:

,,Hvað leiddi rannsókn landlæknisembættisins í ljós um meintar óeðlilegar ávísanir lækna á ávanabindandi lyf?``

Eftir að orðrómur um að meintar óeðlilegar ávísanir lækna á ávanabindandi lyf náði hámæli á vormánuðum beindi ég þeim tilmælum til landlæknis og Lyfjastofnunar um að tekið yrði upp hert eftirlit með lyfjaávísunum lækna á slík lyf. Í framhaldi af því, auk venjubundins reglulegs eftirlits, voru ávísunarvenjur um það bil 10 lækna skoðaðar sérstaklega allt að eitt ár aftur í tímann. Var þar um að ræða lækna sem landlæknisembættinu höfðu borist ábendingar um að stunduðu óeðlilegar ávísanir á ávanabindandi lyf. Voru í því sambandi skoðuð gögn er vörðuðu samskipti þessara lækna við ýmsa einstaklinga.

Niðurstaða þessarar sérstöku athugunar leiddi í ljós að í langflestum tilvikum var um að ræða eðlilegar skýringar á lyfjaávísunum þeirra lækna sem grunaðir höfðu verið um óeðlilegar ávísanir ávanabindandi lyf. Í nokkrum tilvikum gerði landlæknir þó athugasemdir og gaf ábendingar. Í læknalögum segir að ráðherra geti að fenginni tillögu landlæknis lagt fyrir lækni að halda skrá yfir ávísanir á ávana- og fíknilyf og í tilefni notkunar þeirra. Í engu tilviki sá landlæknir ástæðu til að leggja fram slíka tillögu til ráðherra. Í einu tilviki þessu tengdu hefur þó landlæknir skýrt ráðherra frá og gert tillögu um að læknir skuli sviptur lækningaleyfi fyrir alvarlegt hirðuleysi og óhæfu í læknisstarfi.

Í læknalögum segir að landlæknir hafi almennt eftirlit með ávísun lækna á lyf, einnig að Lyfjastofnun tilkynni landlækni telji stofnunin rökstudda ástæðu til eftirlits með ávísunum læknis á ávana- og fíknilyf. Í reglugerð um afgreiðslu, áritun og afhendingu lyfja frá 22. janúar 2001 segir í 22. gr. um eftirritunarskyld lyf:

,,Lyfsalar og aðrir, sem hafa leyfi til lyfjasölu, skulu halda eftir lyfseðlum er hljóða á eftirritunarskyld lyf.

Lyfseðlar þessir skulu sendir Lyfjastofnun í ábyrgðarpósti fyrir 10. dag næsta mánaðar eftir að lyfið var afgreitt.``

Eftir ofangreindum lögum og reglugerðum hefur verið unnið. Lyfjastofnun hefur sent landlækni upplýsingar eins og segir í 19. gr. læknalaga.

Seinni spurning þingmannsins er eftirfarandi: ,,Hefur eftirlit með lyfjaávísunum lækna verið hert? Ef svo er, á hvern hátt?``

Eftirlit landlæknis með ávísunum lækna á lyf er enn óbreytt frá því sem verið hefur, sbr. lög og reglugerðir sem minnst var á hér að framan, að öðru leyti en því að þær stofnanir sem að eftirlitinu koma, bæði landlæknisembættið og Lyfjastofnun, eru nú enn betur á varðbergi gagnvart ýmsum atvikum á borð við þau sem ollu fjölmiðlaumræðu sl. vetur. Í framhaldi af þeirri umræðu hef ég í sumar látið stýrihóp vinna skýrslu um upplýsingar sem skráðar eru á lyfseðlum og hvernig með þær skuli farið. Stýrihópnum var einnig falið að gera tillögur að hertu eftirliti landlæknis og Lyfjastofnunar með ávana- og fíknilyfjum. Stýrihópurinn hefur skilað áliti og ítarlegum tillögum sem ná til alls ferilsins og auk þess drögum að nauðsynlegum lagabreytingum til að tryggja aðgang landlæknis að persónuupplýsingum vegna eftirlitsins og hvernig með þær upplýsingar skuli farið.

Ég mun á næstu dögum leggja fram lagafrv. sem ég hef látið vinna og byggir á tillögum stýrihópsins. Skýrslu stýrihópsins með nánari upplýsingum er hægt að nálgast á heimasíðu ráðuneytisins.