Lyfjaávísanir lækna

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:28:48 (774)

2002-10-30 14:28:48# 128. lþ. 18.2 fundur 122. mál: #A lyfjaávísanir lækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hafi brugðist við. Hér er væntanlegt lagafrv. í kjölfar umræðunnar og ég fagna einnig yfirlýsingu ráðherra um að stjórnvöld séu betur á varðbergi.

En mér finnst ótrúlegt, eftir þær upplýsingar sem komu fram í vor og voru ræddar hér í þinginu að frumkvæði hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, að aðeins einn læknir hafi verið sviptur leyfi. Þar komu fram upplýsingar um að fimm læknar hefðu ítrekað ávísað ótæpilegu magni af morfíni til fíkla. Sömuleiðis voru dæmi um lækni sem vísaði 920 morfíntöflum til fíkils á 95 dögum. Það var vitað að þessi einstaklingur var illa haldinn af eiturlyfjafíkn og var ekki sjálfráður gerða sinna. Mér finnst með ólíkindum ef þessir fimm læknar sem bent var á gátu dregið fram eðlilegar orsakir fyrir þessu. Þarna voru mjög alvarleg tilvik en ég spyr hæstv. ráðherra: Var þetta eðlilegt í þessum tilvikum, nema hjá þessum eina?