Lyfjaávísanir lækna

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:30:09 (775)

2002-10-30 14:30:09# 128. lþ. 18.2 fundur 122. mál: #A lyfjaávísanir lækna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin og fagna því að á þessu hafi verið tekið sérstaklega, eins og ráðherrann gaf reyndar fyrirheit um í apríl. Það er ánægjuefni að af þessum hópi, þessum 10 einstaklingum sem voru í sérstakri skoðun hjá landlæknisembættinu, hafi aðeins verið ástæða til að leggja til leyfissviptingu hjá einum en í flestum tilvikum hafi verið um eðlilegar ávísanir að ræða. Samt sem áður hefur landlæknisembættið þurft að veita áminningar og einnig að herða eftirlitið frá því sem áður var.

Ég var að vona að ásamt svörum hæstv. ráðherra kæmu yfirlýsingar um þessa afeitrunarmiðstöð sem einnig var rætt um í vor og kom fram heilmikil umræða um í fjölmiðlum. Reyndar hef ég haft í undirbúningi till. til þál. varðandi það. Ég tel mikla nauðsyn á að slík afeitrunarmiðstöð verði til og taki að hluta við því hlutverki sjúkrahúsanna að annast einstaklinga sem eru mjög háðir neyslu eiturlyfja. Þeir sem í dag leita inn á almennar deildir ættu í raun og veru að leita sér aðstoðar á slíkum miðstöðvum. Við vitum að neysla harðra efna eykst og að sífellt yngri unglingar fara út í slíka neyslu. Þess vegna er sannarlega ástæða til að hafa eftirlit ávísunum lækna á þessi lyf. Ég er sannarlega viss um að þetta er ekki algengt í læknastéttinni en engu að síður verða aðrir að gjalda þess þegar eftirlitið er hert.