Reglugerð um landlæknisembættið

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:40:45 (779)

2002-10-30 14:40:45# 128. lþ. 18.3 fundur 125. mál: #A reglugerð um landlæknisembættið# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖHJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:40]

Örlygur Hnefill Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þessa umræðu vegna þarfra ábendinga hv. 3. þm. Suðurl., Margrétar Frímannsdóttur, varðandi reglugerðir. Það er auðvitað grundvallaratriði að haft sé eftirlit með þeim reglugerðum sem ráðherrum er heimilað að setja.

Ég flutti á þingi sl. haust þáltill. um eftirlit Alþingis með fyrirmælum framkvæmdarvaldshafa. Þetta er grundvallarmál í stjórnskipun. Þetta varðar þrígreiningu ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Það verður að standa vel að þessum málum og er mjög eðlilegt að viðkomandi nefndir fái reglugerðir til umsagnar. Það eru heimildir í lögum til að setja reglugerðir. Stundum eru þær settar og stundum ekki. Það er ekkert eftirlit með þessu, vil ég fullyrða. Þetta mál varðar sjálfa stjórnskipunina. Hér vekur hv. þm. Margrét Frímannsdóttir athygli á grundvallaratriði.