Daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 14:59:32 (790)

2002-10-30 14:59:32# 128. lþ. 18.4 fundur 126. mál: #A daggjöld dvalar- og hjúkrunarheimila# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[14:59]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hér hefur verið látið að því liggja að ekki hafi verið unnið í þessu máli. Ég vísa því á bug. Upplýsingar um stöðuna liggja fyrir í heilbrrn. Hins vegar vil ég taka fram að við afgreiðslu og undirbúning fjárlaga varð það að samkomu lagi milli fjmrn. og heilbrrn. að tekinn yrði tími í að fara nánar yfir hana fram að 2. umr. fjárlaga. Það er ástæðan fyrir því að þetta mál er ekki afgreitt enn þá, ekki að það hafi ekki verið unnið í málinu í heilbrrn.

Það hefur komið fram, m.a. í stefnuræðu forsrh. þegar hann fjallað um heilbrigðisstofnanir, að á vettvangi ríkisstjórnarinnar var ákveðið að fara yfir þessi mál áður en þessi reikningur yrði teknir inn á fjárlög, þ.e. ákveða að hve miklu leyti hann yrði tekinn inn á fjárlög.

Það er talað um samræmingarvinnu. Sú samræmingarvinna hefur verið í gangi lengi og er mjög langt komin. Daggjöld eru m.a. ákveðin eftir svokölluðu RAI-mati sem á að vera samræmt fyrir þessar stofnanir. Verið er að skoða uppsafnaðan vanda í tengslum við þetta í samvinnu ráðuneytanna. Það hefur verið ágæt samvinna milli fjmrn. og heilbrrn. við að greina vandann. Eitt vandamálið er m.a. að kjarasamningar á þessum stofnunum eru undir tveimur höttum.