Hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:08:46 (793)

2002-10-30 15:08:46# 128. lþ. 18.5 fundur 200. mál: #A hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., GHall
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:08]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil þakka þessa fyrirspurn. En ég hlýt að spyrja: Er fyrirspyrjanda og hæstv. heilbrrh. alvara með því sem þau eru að segja, að spítali sem byggður var 1910 sé afar heppilegur geymslustaður fyrir aldraða? Eru þeir að meina þetta? Við sjáum hvernig rekstur spítalanna hefur verið í gegnum árin, sem voru í byggingu á árunum 1925--1930, Landakot; Landspítalinn, frá 1934--1960 og Borgarspítalinn frá 1960--1970. Eilíf rekstrarvandamál. Síðan segja menn að vegna sérstaks vanda með vistunarrými fyrir aldraða verði að fara í Vífilsstaðaspítala.

Það er stofnun sem heitir Hrafnista í Hafnarfirði. Hún hefur beðið eftir því síðan 1991 að byggja 90 rýma hjúkrunarálmu sem mundi í dag kosta 1.100 millj. tilbúin og rekstrarkostnaðurinn yrði svipaður og hér er verið að segja að Vífilsstaðaspítali muni kosta, vegna þess hann hentar ekki til þessarar starfsemi.

Hér er bara ein plástursaðgerðin enn í málefnum aldraðra. Ég hlýt að mótmæla því harðlega. Ég tel ekki eðlilegt að tjalda til einnar nætur heldur þarf að fara í að byggja til framtíðar.