Hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:12:33 (796)

2002-10-30 15:12:33# 128. lþ. 18.5 fundur 200. mál: #A hjúkrunarrými á Vífilsstaðaspítala# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessar umræður og jafnframt hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör.

Varðandi þau orð sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, stjórnarformaður Hrafnistu, lét falla hér áðan þá tel ég að menn eigi ekki að koma með svona æsing hérna inn þó að menn standi í prófkjöri. (GHall: Ert þú að fara í prófkjör?) Ég ætla ekki í prófkjör. En hitt ber á að líta, eins og fram kom í máli hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, að í rauninni er ólíðandi að þetta glæsilega og menningarsögulega húsnæði standi autt. Sérfræðingar hafa talað um að Vífilsstaðir væru hugsanlega heppilegur staður undir hjúkrunarrými, þar á meðal forstjóri Landspítala -- háskólasjúkrahúss, þannig að það er ekki úr lausu lofti gripið að koma með þessa tillögu.

Meginmálið er að þetta svæði og þetta hús verði áfram nýtt til starfsemi sem kemur borgurum vel. Hjúkrunarrými fyrir aldraða er ein hugmynd þar á meðal.