Löggæslumál í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:24:15 (801)

2002-10-30 15:24:15# 128. lþ. 18.6 fundur 202. mál: #A löggæslumál í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi LB
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:24]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég heyri það á ræðu hæstv. dómsmrh. að við erum sammála um að styrkja þurfi löggæsluna í Rangárvallasýslu. Ég heyri að það er til sérstakrar skoðunar að styrkja hana frá því sem nú er. Mér skildist einnig á ræðu hæstv. ráðherra að mjög erfitt væri að sinna öllum þeim verkefnum sem á lögreglumenn á Hvolsvelli eru lögð með einungis þriggja manna liði.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég held að þau hafi verið ágætt innlegg í þessa umræðu. Ég tek undir að vissulega vinnur það fólk sem þarna starfar gott starf.

Ég vil þó aðeins biðja hæstv. ráðherra að gæta hófs og mála hlutina ekki bjartari litum en ástæða er til hverju sinni. Ég vil ekki hvetja til sérstakrar svartsýni en sveitarfélög á Suðurlandi hafa ályktað um þetta og eindregið hvatt til að á þessum málaflokki verði gerð bragarbót. Þau vilja að lögreglan verði efld. Það skiptir fólk almennt miklu máli að þessir hlutir séu í lagi. Það skiptir fólk miklu máli að það finni til öryggis. Það skiptir fólk miklu máli þegar það ákveður hvar það vill setjast að að frá þessum málum sé vel gengið.

Ég vil með þessari fyrirspurn hvetja ráðherra til frekari aðgerða og góðra verka. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að þessi mál væru í skoðun og fyrirhugað væri að bæta það ástand sem nú er.