Löggæslumál í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 30. október 2002, kl. 15:26:23 (802)

2002-10-30 15:26:23# 128. lþ. 18.6 fundur 202. mál: #A löggæslumál í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 128. lþ.

[15:26]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Mér þykir rétt í tilefni af þessari fyrirspurn að fara sérstaklega yfir tíðni alvarlegra hegningarlagabrota í umdæminu sem er sem betur fer með þeirri lægstu sem gerist á landinu öllu.

Sé miðað er við árið 2000, en tölur liggja fyrir um landsmeðaltal þess árs, þá eru auðgunarbrot 376, en á Hvolsvelli 151. Eignarspjöll 150, á Hvolsvelli 31. Líkamsmeiðingar 54, á Hvolsvelli 44. Fíkniefnabrot 28, á Hvolsvelli 9,5. Þessar tölur eru miðaðar við brot á hverja 10.000 íbúa.

Þess má þar að auki geta að langstærstur hluti verkefnanna er umferðarlöggæsla eða vel yfir 80% allra mála. Ég held að lögreglan í Rangárvallasýslu hafi staðið sig mjög vel í sínum störfum.

Hins vegar er rétt að taka það fram að miðað við íbúafjölda í umdæmi sýslumannsins á Hvolsvelli og samanborið við önnur umdæmi þarf að huga að því að fjölga lögreglumönnum þar. Lögreglumenn á Hvolsvelli hafa verið fjórir síðasta áratug og rúmlega það. Á sama tíma hefur íbúum í umdæmi sýslumannsins fækkað lítillega en aðrir þættir vega þar e.t.v. á móti.

Miðað við íbúafjölda eru um 800 íbúar á hvern lögreglumann í umdæminu sem er töluvert fyrir ofan landsmeðaltal. Þetta er dómsmrn. að sjálfsögðu fullkunnugt um og að því hefur verið unnið að fjölga lögreglumönnum á Hvolsvelli eins og ég hef rakið. Fjölgað verður um einn þegar um næstu áramót og staðan verður skoðuð frekar á næsta ári.

Ég taldi rétt, herra forseti, að bæta þessum upplýsingum við fyrri svör mín við fyrirspurninni.