Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 10:36:26 (805)

2002-10-31 10:36:26# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[10:36]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Út af fyrir sig er kannski ekki sérstök ástæða til að deila á að hér skuli lagt til að aflaheimildir sem ætlað var að úthluta á síðasta fiskveiðiári megi nýta næsta ár á eftir. En ég tel ástæðu til að óska eftir því að hæstv. ráðherra geri okkur einhverja grein fyrir því hvernig gengið hefur að úthluta þessum veiðiheimildum eftir þeim reglum sem upp voru fundnar til þess á síðasta veiðiári og hvort hugmyndin er að nota sams konar viðmiðanir og reglur við þær úthlutanir sem fram undan eru. Ég spyr vegna þess að mikið hefur verið deilt á þessa úthlutun, bæði á að miðað skuli við heimahöfn báta en ekki útgerðarstaði og hitt og annað hefur komið upp við þessar úthlutanir. Úthlutunin hefur auðvitað stuðst við einhverjar athuganir en verður alltaf umdeild vegna þess að þetta eru sértækar aðferðir sem koma mjög ójafnt niður og eru mjög ósanngjarnar gagnvart ýmsum sem hlut eiga að máli.

Þetta frv. er enn ein afleiðingin af því fyrirbrigði sem við sitjum uppi með í sjávarútveginum, gjafakvótanum, þar sem sumir fá endalaust úthlutun frá ríkinu fyrir ekki neitt og geta selt þessi réttindi út og suður þannig að fólkið og byggðalögin sitja eftir án veiðiréttinda. Þá koma góðu mennirnir með gjafakvótann til að reyna að rétta af og hjálpa. Það eru þingmennirnir sem ráða því hverjir fá og hverjir fá ekki. Þetta er hlutverkið sem hæstv. ríkisstjórn og þeir þingmenn sem styðja hana hafa tekið að sér, að velja og hafna fólki í þessari atvinnugrein með einhvers konar hundakúnstum sem kallaðar eru reglur en mismuna fólki mjög mikið. Hvernig á annað að vera þegar menn segja annars vegar að það eigi að úthluta veiðiréttindunum vegna þess að byggðarlög lendi í vandræðum en jafnframt eigi að úthluta þeim til einstakra útgerðarmanna? Með því er gert upp á milli sambærilegra útgerðarmana, manna í sömu stöðu, bara á grundvelli þess hvort þeir eru með skráð skip í byggðarlagi sem hefur lent í vanda eða ekki. Í umræðunni á eftir verða vafalítið nefnd fjölmörg dæmi um hvernig þessir hlutir hafa gengið fyrir sig.

Þetta er auðvitað gersamlega óhæft fyrirkomulag. Nú er svo komið að farið er að úthluta með þessum hætti á áttunda þúsund tonna á ári, með sértækri úthlutunum samkvæmt tillögum ýmist Byggðastofnunar eða sjútvrn. Á hvaða leið eru menn? Á sama tíma halda menn áfram að sameina útgerðir og selja veiðiréttinn út og suður. Hvað þýðir það? Það þýðir að það þarf enn meira í þennan pott og þingmennirnir fá enn þá meiri veiðirétt til að úthluta til þeirra sem eiga að hljóta gæðin.

Svona er komið fyrir aðalatvinnuvegi þjóðarinnar og menn halda bara galvaskir á þeirri braut. Það eru engar hugmyndir uppi um það frá hendi stjórnvalda að breyta þessu með neinum hætti, að taka upp fyrirkomulag sem hægt væri að segja að styddist við jafnræði til að nýta þessa auðlind. Þetta er gersamlega óhæft og hæstv. ráðherra er ekki öfundsverður af hlutverki sínu. En hann hefur kosið sér það sjálfur. Það er óþarfi að vorkenna honum vegna þess.

Ég sé því miður ekki annað fram undan en að ástandið muni halda áfram að versna, að fleiri byggðarlög bætist í hóp þeirra sem talin eru í vanda á hverju ári og taka þurfi meiri og meiri veiðirétt til hliðar svo að sjútvrh. geti séð til að fólkið geti áfram átt heima í þessum byggðarlögum. Þetta er vandinn í hnotskurn. Kannski má segja að vandinn í hnotskurn sé miklu fremur sá að það er ekki vilji til að breyta þessu. Þá sem við stjórnvölinn eru skortir vilja til að taka á þessu máli og koma á jafnræði og réttlæti í sjávarútveginum. Það mun sjálfsagt ekki verða nema kjósendur láti þann vilja sinn í ljós með einhverjum hætti, öflugar en þeir hafa gert hingað til. Það hefur að vísu komið fram í skoðanakönnunum hvað eftir annað í gegnum tíðina, alveg sama hvaða áróður hefur verið rekinn fyrir þessu kerfi, að almenningur vill þetta ekki. En þeir sem stýra málum hafa haldið áfram þrátt fyrir það. Það er verið að stilla fólkinu í landinu upp við vegg varðandi það að ef það vill mótmæla þessu kerfi þá verði það að fara gegn flokknum sínum. Stjórnarflokkarnir hafa brotið gegn grundvallarreglu flokkalýðræðisins, þ.e. að í stórum málum má ekki ganga yfir það sem fólkið vill. Með því er grafið undan flokkalýðræðinu. Það er umhugsunarefni hvað gerist, í eins stóru máli og þessu, þegar farið er gegn vilja þjóðarinnar af óbilgirni eins og gert hefur verið.

Ég ætla ekki að hafa lengri tölu um þetta. Ég tel að það sé út af fyrir sig skiljanlegt að hæstv. sjútvrh. vilji koma þessu til skila. Það verður aðeins meira í vösum þeirra sem koma í byggðarlögin til þess að úthluta viðbótarveiðiréttindum fyrir kosningarnar í vor.