Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 11:43:46 (810)

2002-10-31 11:43:46# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[11:43]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þm. Karl V. Matthíasson hefur hlustað á málflutning minn varðandi pottana hefur hann tekið eftir því að ég taldi frv. ekkert stórdæmi miðað við núverandi fiskveiðistjórnarkerfi og miðað við það hvernig menn stjórnuðu málunum í dag. En ég undirstrikaði hins vegar klárlega að þetta pottakerfi væri afleiðing og viðleitni þeirra sem stjórna í dag til að lina þjáningarnar sem þetta kerfi leiðir af sér.

Varðandi byggðakvóta er það allt önnur hugsun en hv. þm. Karl V. Matthíasson stendur fyrir í tillöguflutningi ásamt félögum sínum í Samfylkingunni. Þeir leggja til fyrningarleið og síðan uppboð aflaheimilda. Byggðakvóti samkvæmt okkar tillögum --- við höfum farið yfir þetta mörgum sinnum hér í þinginu --- er að 1 3 út úr fyrningu. Að því leyti er reginmunur á þeim tillögum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt til og tillögum Samfylkingarinnar.

Við viljum byggðatengja hluta fiskveiðiheimildanna. Í okkar tillögum er gert ráð fyrir því að það sé 1 3 veiðiheimildanna. Það hefur sýnt sig fyrir þá sem hafa verið í þeirri stöðu undanfarið að gríðarlega mikil trygging er í slíku fyrirkomulagi. Ég hef þráfaldlega nefnt til sögunnar sveitarfélagið Grenivík sem dæmi. Þeir á Grenivík hafa þennan byggðakvóta sem gerir því sveitarfélagi mögulegt að gera samninga um umsvif í sveitarfélaginu o.s.frv. Þessi hugsun um byggðatengingu er frábrugðin öllum öðrum tillögum sem hafa komið fram varðandi breytingar á stjórn fiskveiða.