Stjórn fiskveiða

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 11:54:54 (817)

2002-10-31 11:54:54# 128. lþ. 19.1 fundur 244. mál: #A stjórn fiskveiða# (flutningur aflaheimilda milli ára) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[11:54]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í ræðu hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar vék hann að því að fólk í sjávarbyggðunum væri óöruggt um framtíð sína og ef það sæi færi til væru menn jafnvel tilbúnir að selja eignir sínar, bregða búi og færa sig til. Nú vill svo til, herra forseti, að ríkið gerði dálitla tilraun um daginn sem ég veit ekki hvort hv. þm. hafa tekið eftir.

Það var auglýst eftir bústað fyrir rektor Menntaskólans á Ísafirði. Það þurfti að vera nokkuð gott hús eða einbýlishús, þetta er stór fjölskylda og allt gott um það. Hvað gerist þá? Þá bregður svo við að á Ísafirði eru allt í einu til sölu 23 eða 27 hús, ég man ekki hvort það var. Þarna voru til sölu bestu hús margra borgara sem maður taldi að væru flestir í nokkuð öruggri vinnu og sæju sumir hverjir fram á nokkuð þokkalega framtíð þó að vissulega væru innan um menn sem komnir eru í vanda og sjá ekki framtíðarmöguleika í búsetunni á Ísafirði miðað við núverandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Ég kem hér upp til að vekja athygli á þessu, að jafnvel í plássi eins og Ísafirði þar sem er ýmis önnur atvinnustarfsemi en sjávarútvegur, menntaskóli, sjúkrahús og fjölmörg önnur þjónustufyrirtæki, stóð allt í einu til boða að kaupa 23 hús, ef ég man rétt --- bara einn, tveir og þrír, um leið og menn áttu von á góðu verði. Þetta sýnir, herra forseti, að óöryggið sem hv. þm. vék að er staðreynd og það er mjög alvarlegt að þannig skuli það vera.